Tuttugasti og annar kafli: Kostnaðurinn við krónuna

Stærsta breytingin frá EES til aðildar að ESB er augljóslega möguleikinn á fasttengingu við evru og síðar upptaka hennar sem gjaldmiðils okkar. Stundum er gantast með að kannski væri best að fara þá hjáleið, að tengja íslensku krónuna við þá færeysku, sem aftur er fasttengd þeirri dönsku sem er nokkurn veginn föst við evruna. Þannið gætum við í gegnum Færeyjar tekið upp evru án vandkvæða.

Óháð þeim gamanmálum er þetta ein mikilvægasta röksemdin fyrir aðild og ávinningurinn af upptöku evrunnar hefur verið drifkraftur aðildarumræðunnar síðustu misserin. Hrun krónunnar færði hana á nýtt stig enda gera allir alvarlega hugsandi menn sér ljóst að við krónuna verður ekki búið til langframa.

Afleiðingarnar af gjaldmiðilshruninu voru fyrirsjáanlegar og þeirra gætti strax vorið 2008: Höfuðstóll gengistryggðra lána snarhækkaði, verðbólgan rauk upp og þar með höfuðstóll verðtryggðra lána. Bankarnir hættu að lána, húsnæðismarkaðurinn fraus og atvinnuleysi jókst. Gengishrunið þurfti ekki að koma neinum á óvart. Gólfið undir gjaldmiðlinum var falskt og niður um það féllum við með dynki þegar fúasprekin gáfu eftir.

Eina leiðin til þess að stöðva fall krónunnar haustið 2008 og koma í veg fyrir að hún færi sömu leið og zimbabveski dollarinn var að setja lög um höft á viðskipti með gjaldeyri. Án þeirra miklu takmarkana sem þau settu á fjármagnsflutninga til og frá landinu átti efnahagur landsins sér ekki viðreisnar von. Krónan var verðlaus og þar með ónýtur gjaldmiðill.

Þegar íslenska krónan varð til árið 1918 upp úr þeirri dönsku voru þær jafnverðmætar. Ein á móti einni. Nú næstum öld síðar kostar ein dönsk króna í kringum 20 íslenskar. Aukinheldur voru í millitíðinni tekin tvö núll aftan af þeirri íslensku. Þetta þýðir að „verðmæti“ íslensku krónunnar er einn tvöþúsundasti af því sem það var í upphafi.

Í sögulegu samhengi er óhætt að segja að evran sé svar Evrópuríkja við hnattvæðingunni og auknum alþjóðlegum viðskiptum. Þau sameinuðust um gjaldmiðil – flest hver og sum þó með óbeinum hætti – til að auðvelda milliríkjaviðskipti, auka stöðugleika og bæta lífskjör.

Hverjir eru helstu kostirnir við upptöku eða tengingu við evruna, sem hefur á rúmlega áratug fest sig í sessi sem gjaldmiðill Evrópu og einn sterkasti gjaldmiðill heims, þrátt fyrir hina gífurlegu efnahagskreppu síðustu missera?

Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins varpar skýru ljósi á vandann með dæmi af ógöngum Orkuveitu Reykjavíkur í leiðara blaðsins sl.sumar.

Þar segir hann m.a.:

Minni gaumur hefur verið gefinn að því hvernig skuldirnar urðu til. […] Orkuveitan stofnaði til mikilla skulda vegna virkjanaframkvæmda, sem voru þó hluti af hefðbundnu hlutverki fyrirtækisins. Það áttu að geta orðið arðbærar framkvæmdir. Fyrir þeim voru tekin erlend lán, enda verkefnin af þeirri stærðargráðu að þau urðu hvorki fjármögnuð eingöngu á innlendum fjármagnsmarkaði né á íslenzkum vöxtum, sem eru hærri en annars staðar vegna smæðar og áhættu gjaldmiðilsins.

Hrun gjaldmiðilsins er svo einmitt stærsta orsök skuldavanda Orkuveitunnar. Skuldir fyrirtækisins tvöfölduðust um það bil; gengistapið á árinu 2008 reiknaðist 93 milljarðar. Þetta er að sjálfsögðu ekkert einsdæmi. Ótal fyrirtæki og heimili um allt land eru í sömu sporum, að skuldirnar tvöfölduðust vegna hruns gjaldmiðilsins. Afleiðingarnar eru hins vegar svo æpandi í tilfelli Orkuveitunnar vegna stærðar fyrirtækisins og áhrifa á daglegt líf og fjárhag meirihluta landsmanna…

Hrun krónunnar hefur valdið hruni í lífskjörum almennings. Verðbólgan hefur aukizt, allur innflutningur er dýrari og kaupmátturinn hefur rýrnað. Skuldabyrði allra hefur þyngzt vegna krónuhrunsins, hvort sem fólk er með verðtryggð lán eða gengistryggð. Nú bætast við hækkanir á rafmagns-, vatns- og húshitunarkostnaði, allt í boði þeirra sem hafa talið og telja enn íslenzku krónuna vera frábæran gjaldmiðil.“

Þetta er kjarni vandans og verkefnisins sem við er að eiga. Sífelldar sveiflur og reglubundið hrun krónunnar hafa valdið slíkum búsifjum í lífi fólks og fyrirtækja að fullkomlega óviðunandi er að búa við þær áfram. Þessi skipan gjaldeyrismála hefur áratugum saman kostað okkur alltof mikið og henni verður að breyta.

Lægri viðskiptakostnaður, aukin alþjóðaviðskipti, aukin fjárfesting og lægra og stöðugra verðlag eru meðal þess sem fylgja upptöku evrunnar, fyrir utan lægri vexti og afnám verðtryggingar, sem er séríslenskur krónusjúkdómur.

Þá er það alvarlegt fyrir neytendur hversu mikil viðskiptahindrun krónan er. Erlend fyrirtæki, sem vilja tengjast íslenskum neytendamarkaði, þurfa að verja talsverðum tíma og fjármunum í að kynna sér aðstæður á Íslandi, þar með talið þær er snerta gjaldmiðilinn sérstaklega. Það er ekki tilviljun – og hreint ekki bara einkavinavæðingu bankanna að kenna – að hér hefur enginn evrópskur banki hafið starfsemi, en það gætu þeir auðveldlega gert á bankaleyfi úr heimalandi sínu í gegnum EES-samninginn. Hið sama gildir um tryggingafélög og fyrirtæki í fjölmörgum öðrum atvinnugreinum.

Kostnaðurinn við krónuna er kjarni málsins. Hann er talinn nema langt yfir hundrað milljörðum á hverju ári. Sá kostnaður kemur fram í háum vöxtum, verðlagi og miklum fjármagnskostnaði vegna verðtryggingar og óstöðugleika gjaldmiðilsins. Þannig borgar hver húsnæðiskaupandi híbýli sín nokkrum sinnum á lánstímanum á meðan kaupandi í sömu stöðu á evrusvæðinu greiðir rétt rúmlega upphæð lánsins sem hann tók.

Margir hafa spreytt sig á því að reikna kostnaðinn út og fer niðurstaðan auðvitað eftir forsendum sem gefnar eru. Einn af þeim sem hafa skrifað af mestri skynsemi og yfirvegun um Evrópumál er Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur og ritstjóri Vísbendingar. Hann segir í pistli á vefnum heimur.is í apríl 2009 að einungis lækkað vaxtaálag við upptöku evru upp á 3% myndi spara ríkissjóði einum um 45 milljarða króna.

Benedikt skrifar:

Raunvextir á Íslandi eru nú 10-15% meðan nágrannalöndin hafa fikrað sig nær núllinu við hverja vaxtaákvörðun. Því er staða íslenskra fyrirtækja afar slæm gagnvart erlendum samkeppnisaðilum. Skuldir ríkisins stefna nú í 1.500 milljarða króna. Hvert prósentustig í vöxtum jafngildir 15 milljörðum króna. Ef vaxtaálag lækkar um 3% við það að ganga í Evrópusambandið, eins og ráða má af kjörum lána til ES ríkja sem eru nú í vanda, sparar það 45 milljarða króna vaxtagjöld á ári. Það er um það bil þriðjungur af fjárlagahalla þjóðarinnar.

Hvort telja stjórnmálamenn skynsamlegra að taka upp evru og lækka vexti eða beita sársaukafullum niðurskurði ríkisútgjalda á enn fleiri sviðum en ella?“

Fjölmargt fleira styður það að evran sé rökrétti kosturinn fyrir Íslendinga og fátt sem mælir gegn því, nema það sé talinn kostur að fella gengið í samdrætti og þar með keyra niður kaupmátt almennings í landinu. Nú þegar fara um 53% af viðskiptum Íslands fara fram í evrum og meira en helmingur gengisáhættu Íslendinga hyrfi því við upptöku gjaldmiðilsins.

Afstaðan til umsóknar að Evrópusambandinu var hið táknræna stórmál sem skildi stjórnarflokkana að frá myndun ríkisstjórnarinnar 2007. Sá þverbrestur dýpkaði eftir því sem leið á gjaldmiðils- og fjármálakreppuna sem hófst við fall hlutabréfamarkaða í júlí 2007, tveimur mánuðum eftir að Samfylkingin settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Fljótlega upp úr því urðu skuldatryggingaálag, gjaldeyrisforði og frosnir fjármálamarkaðir að helsta umræðuefni þjóðarinnar.

Hver og einn eignaðist sinn eftirlætisgjaldmiðil í stað krónunnar og patentlausnir á borð við einhliða upptöku á nýjum gjaldmiðli náðu inn í raðir allra flokka nema Samfylkingarinnar. Í okkar flokki fór mikil orka í að finna hjáleið framhjá púðurtunnunni sem gat sprungið fyrirvaralaust og rofið friðinn á milli flokkanna, afstöðunni til þess hvort sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu eða ekki.

Málið var mjög viðkvæmt innan Sjálfstæðisflokksins, ekki síst vegna hatrammrar andstöðu Davíðs Oddssonar, og í hvert sinn sem Samfylkingin lyfti Evrópuflagginu þá þyrmdi yfir marga sjálfstæðismenn.

Ég var óhagganlegur í þeirri afstöðu að málið væri alltof mikilvægt til þess að liggja í þagnargildi sem fórn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Gætu þeir ekki þolað málefnalega umræðu um mikilvægasta mál þjóðarinnar yrði svo að vera.

Allir vissu hver vandinn var. Viðskiptalífið vissi það, athafnalífið nánast eins og það lagði sig og æ fleiri stjórnmálamenn vissu að við yrðum að taka stór skref til þess að tryggja áframhaldandi efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar með nýjum gjaldmiðli.

Í fjölda blaðagreina og í mörgum viðtölum við fjölmiðla og ræðum við ýmis tækifæri flutti ég afdráttarlaust mál um að við yrðum tafarlaust að sækja um aðild að ESB og freista þess að komast í aðildarferlinu í tengingu við evruna til þess að afstýra hættu á miklum erfiðleikum og tryggja stöðugleika til framtíðar. Afnám verðtryggingar, skaplegir vextir og stöðugt og lágt verðlag; allt hékk á þessu.

Oftar en ekki féll þessi málflutningur í grýttan jarðveg, að ráðherra í ríkisstjórn skyldi tala svo opið um svo viðkvæmt deilumál á milli stjórnarflokkanna. Enda hringdu þau í mig bæði Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde til þess að biðja mig að láta af því að ræða um Evrópumálin á þessum nótum.

Ég hlustaði auðvitað á þau og tók tillit til athugasemda – enda voru þetta forystumenn ríkisstjórnarflokkanna – en hélt samt mínu striki í þessum efnum með margvíslegum hætti.

Ég fór sannarlega í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, en ekki á forsendum hans og óbreytts ástands.

Aðild að Evrópusambandinu snýst um margt, en stóra málið henni tengt er að koma hér á svipuðum efnahagslegum stöðugleika og nágrannaþjóðir okkar búa við, lága vexti, litla verðbólgu og þar með betri lífskjör fólks og fyrirtækja.