Sautjándi kafli: „Ganga með sjó – sitja við eld“

Strax daginn eftir Glitnishelgina hófust átökin um hvað væri hvers í þeim áföllum sem gengu yfir. Ljóst var að allt væri á leið til verri vegar og enginn ætlaði að sitja uppi með Svarta Pétur eftir þann dauðadans.

Ásakanaleitin hefur einungis ágerst síðan enda eru málin komin á háalvarlegt stig laga og réttar. Átökin minna á köflum á mannvíg Sturlungaaldarinnar nema hvað nú eru menn ekki vegnir heldur mannorð þeirra tekið og troðið niður miskunnarlaust. Griðin falla hvert af öðru og þá er nánast hvað sem er leyfilegt í stríðinu sem að miklu leyti er háð í skjóli nafnleyndar og í vari tölvuskjáa.

Alþingi tók fljótlega eftir hrun ákvörðun um að setja á fót óháða sérfræðinganefnd til þess að grafast fyrir um orsakir efnahagshrunsins. Nefndin átti að skila skýrslu liðlega ári eftir fall bankanna um frumorsakir efnahagshrunsins. Þannig áttu óháðir sérfræðingar, sem hvorki létu undan þrýstingi frá athafnamönnunum né stjórnmálaflokkunum, að fara fyrir hlutlausri rannsókn á orsökum að falli banka og gjaldmiðils. Miklu skipti að vel tækist til við val á fólki í nefndina og um það yrði sátt þvert á allar línur. Að verulegu leyti tókst það og mestu skipti þar hlutur Páls Hreinssonar formanns nefndarinnar, en hann ljáði henni yfirbragð trausts og festu.

Starf nefndarinnar var vandasamt og skipti miklu máli til að ná samfélaginu aftur saman og sátt innan þess, að út úr starfinu kæmi hispurslaus útttekt á því sem aflaga fór. Um leið byggðist óhjákvæmilega upp mikil eftirvænting um að rannsókn nefndarinnar leiddi í ljós með einföldum hætti hvaða athafnir hvaða einstaklinga lægju að baki hruninu. Nefndin starfaði undir mikilli pressu með viðstöðulausum tilgátum um hvort hún myndi skila á réttum tíma og hverjar niðurstöðurnar yrðu.

Nefndin átti löng samtöl við flesta fyrrum ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ég átti ágætt viðtal við nefndina sem spurði margs og fór um víðan völl. En eitt var ég ósáttur við. Það voru að mér fannst fyrirfram mótaðar skoðanir Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis og nefndarmanns. Í rúmlega þriggja tíma viðtali voru spurningar hans afar gildishlaðnar. Ég gerði fljótlega eftir að samtalið hófst formlega athugasemd við nálgun og framgöngu Tryggva, þar sem mér þótti framsetningin þannig að hann svaraði sér í raun sjálfur.

Nefndin ákvað í starfi sínu að taka sjö embættismenn og ráðherra út og ásaka um vanrækslu út frá nýrri skilgreiningu á hugtakinu. Ekki var heldur litið lengra um öxl en til maí 2007, það er þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við, og því var allur aðdragandi bankahruns og hið örlagaríka ár 2006 látið hjá líða án mikillar rannsóknar í þessu samhengi.

Hið sama gilti um sjálfa einkavæðingu bankanna, rót harmleiksins og upphaf. Til dæmis óskaði rannsóknarnefndin ekki eftir einu skjali úr viðskiptaráðuneytinu aftar í tíma en frá maí 2007. Þó geymir ráðuneytið sögu bæði einkavæðingar og útrásar bankanna, stofnunar Icesave í október 2006, tilurð Fjármálaeftirlits og árlegar fjárheimildir til þess og svo mætti lengi telja.

Fortíðin eða aðdragandinn virtist ekki til ítarlegrar skoðunar heldur var einblínt á hrunadansinn síðustu mánuðina þegar lítið var hægt að gera annað en að bjarga því sem bjargað varð. Þó að margt hafi farið úrskeiðis og stjórnsýslan sem slík hafi að sumu leyti brugðist, þá er ástæðu þess kerfisbrests sem felldi efnahag landsins að leita aftar í tíma og þess hve veikar eftirlitsstofnanirnar voru og málaflokkum skipt á milli ráðuneyta. Þar markar EES-samningurinn upphaf tímabilsins og einkavæðing bankanna upphaf endalokanna.

Tólf ára stjórnarsamstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var meira og minna látið liggja á milli hluta í rannsókn nefndarinnar og engar vanrækslusyndir bornar á þá ráðherra sem fóru með landstjórnina á tímanum 1995-2007. Það vekur áleitnar spurningar um aðferðafræði nefndarinnar og úrvinnslu á því sem snertir stjórnmálin og þátt þeirra í efnahagsfallinu.

Hins vegar var mikilvægt að um störf nefndarinnar ríkti friður og niðurstaðan yrði trúverðug. Þjóðina sárvantaði sameiginlegt haldreipi þar sem sannleikurinn um hrunið yrði dreginn fram í eitt skipti fyrir öll. „Hver er sekur?“ má segja að hafi svifið yfir vötnum eins og í glæpasögu, þar sem ódæðismaðurinn er leiddur fram í lokin og réttlætið nær fram að ganga. Ákvörðun og lagasetning Alþingis um nefndina var mikilvæg og nauðsynleg enda eftir því tekið langt út fyrir landsteina hvernig Íslendingar gera upp hrunið.

Biðin eftir skýrslunni var erfið og í raun sá tími sem tók mest á frá því að hrunið hófst á skírdag 2008 með falli krónunnar. Eitt er að fórna sér í ati dagsins þannig að nótt liggi við degi og takast á við erfið verkefni. Hitt er að bíða. Bíða eftir því að skoðun ljúki á verkum þess litla ráðuneytis sem kom í minn hlut að stýra og bera ábyrgð á. Slík skoðun hafði aldrei fyrr átt sér stað í íslenskri stjórnsýslu eða stjórnmálum, en hún fór nú fram undir mikilli pressu þar sem dómharka og refsigleði gegnsýrði samfélagið.

Það var næstum súrrealísk stund að taka við bréfi sem nefndin lét aka heim til mín aðfaranótt mánudagsins 8. febrúar 2010. Þar var beðið um álit mitt á mögulegri vanrækslu í sex liðum og mig bókstaflega sundlaði þegar ég las bréfið. Efnisatriðin þóttu mér að vísu illa rökstudd, en jafnfjarstæðukennt og mér þótti það vera, þá hafði hið versta gengið fram í þessum eftirmálum öllum. Nú var okkur stillt upp sem „sakborningum“.

Nú tók við næsta æðisgengin vinna við að svara þessum sex efnisatriðum á örfáum dögum sem gefnir voru til að undirbúa andmæli. Það tók mig upp undir viku að finna lögmann til þess að vinna að verkinu með mér. Ég bað hæstaréttarlögmanninn snjalla, Sigurð G. Guðjónsson svila minn, að hjálpa mér að leita en hann hefur oft reynst mér vel í stjórnmálavafstrinu og stutt mig dyggilega. Stéttin var hins vegar störfum hlaðin og illa gekk að finna lögmann sem hafði tíma.

Loks hringdi ég í þá lögmenn sem ég kannaðist sæmilega við og var svo heppinn að einn þeirra vísaði mér á Jóhannes Bjarna Björnsson sem ég hafði ekki áður hitt. Um leið og ég hitti manninn skynjaði ég að þarna var úrvals lögmaður og fínasti náungi, sem og kom á daginn.

Með aðstoð Jóhannesar og góðra vina var skrifað efnismikið andmælabréf og þegar upp var staðið töldum við okkur hafa svarað rannsóknarnefndinni bæði skýrt og skilmerkilega.

Nú tók við enn frekari bið eftir skýrslunni sjálfri. Hún reyndi á þolrifin þó að maður léti sem lítið væri, sinnti sínu starfi sem þingflokksformaður og reyndi að láta ekki umræðuna og spennuna um útkomu skýrslunnar trufla sig frá degi til dags.

En hvað svo? spurði maður sjálfan sig. Hvert á ég síðan að áfrýja eða leita leiða til frekari umfjöllunar um álit rannsóknarnefndarinnar? Stuttur andmælafrestur hafði verið veittur til þess að svara afar alvarlegum spurningum og ávirðingum nefndarinnar. Engin leið var að átta sig á því hvernig úr þeim yrði unnið eða hvað eftir stæði þegar skýrslan loks kæmi.

Andmælabréf mitt birtist ekki í rannsóknarskýrslunni heldur einungis á vef nefndarinnar, en hafði þau áhrif að þegar skýrslan kom loks út 12. apríl stóðu eftir þrjú atriði af hinum upphaflegu sex. Þau eru:

  1. Að ég hefði átt að hafa frumkvæði að því að ríkisvaldið brygðist við upplýsingum um stöðu bankanna og stöðuna í íslensku efnahagslífi með sérstökum aðgerðum, en þó eingöngu fram að 12. ágúst 2008 (7. bindi, bls. 315).
  • Að ég hefði átt að hafa frumkvæði að því að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli (7. bindi, bls. 315–316).
  • Að ég hefði átt að fullvissa mig um og fylgja eftir að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans úr útibúi í Bretlandi yfir í dótturfélag og leita frá sumri 2008 leiða til að stuðla að framgangi sama máls (7. bindi, bls. 316).

Þetta eru alvarlegar ávirðingar sem mér þykja ekki í neinu samræmi við veruleikann eða raunverulega stöðu mála, líkt og ég hafði glögglega gert grein fyrir í andmælum mínum. Þær eru líka settar fram sem dómur án þess að mér hafi með neinum raunverulegum hætti verið gert kleift að verjast svo þungbærum ásökunum.

Þegar leið að útkomu skýrslu rannsóknarnefndarinnar magnaðist spennan á öllum vígstöðvum. Flestir voru búnir að mikla fyrir sér viðbrögðin við henni og þá pólitísku styrjöld sem myndi bresta á í kjölfarið. Svo fór sem betur fer ekki og tóku stjórnmálamenn skýrslunni flestir af nokkurri yfirvegun og stillingu.

Til dæmis um það sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni á Alþingi í tilefni af útkomu skýrslunnar:

„Þá komum við kannski að því sem ég var að tala um áðan, að við megum ekki sveiflast úr einum öfgunum í aðrar, og segja nú að gagnrýnin umræða um það sem þarna kemur fram sé ekki við hæfi. Þeir sem þarna eru bornir þungum sökum verða að fá tækifæri til að svara fyrir sig og við verðum líka að hafa í huga, til að mynda með þá ráðherra úr Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki sem fjallað er um og embættismenn einnig, að þeir hafa þurft að sæta mjög ítarlegri rannsókn, skoðun, sem stjórnmálamenn almennt hafa ekki þurft að fara í gegnum. Fyrir vikið hafa þeir birt ýmislegt sem aðrir stjórnmálamenn, sem einhvern tímann kunna að hafa brotið af sér hér á landi eða annars staðar, hafa ekki setið uppi með.“

Álit nefndarinnar varð mér meiriháttar áfall. Ekki er ofmælt að ég hafi farið út úr þeim degi í hálfgerðu losti þótt ég léti á litlu bera. Vissulega hafði margt mátt betur fara. Það sést glöggt eftir á þegar mesta fjármálakreppa heimsins í áttatíu ár er gengin yfir. En mig hafði aldrei órað fyrir því að lenda í þessari stöðu.

Þetta eru þokukenndir dagar í minningunni þótt ekki sé langt um liðið, en ég hélt ró minni og var staðráðinn í því að láta þennan fellibyl ekki feykja mér um koll, hvorki persónulega né pólitískt. Kalt höfuð og jarðbundið stöðumat vina og félaga, sem stóðu sem klettar við bak mér þessa undarlegu daga, hjálpuðu mér að ráða fram úr aðstæðum og taka erfiðar ákvarðanir.

Ég hafði undirbúið mig eins vel og efni stóðu til fyrir daginn, en enginn undirbúningur er í sjálfu sér nægur fyrir það yfirspennta ástand sem ríkti þennan dag. Þeir Karl Th. Birgisson og Róbert Marshall stóðu vaktina með mér frá því snemma um morguninn og fram eftir degi. Við fórum strax í þá hluta skýrslunnar sem sneru að mér til að ná utan um málið og fá yfirsýn til afdrifaríkra ákvarðana. Þá voru Össur, Helgi Hjörvar, Sandra D. Gunnarsdóttir og Árni Páll traustir vinir og ráðgjafar í gegnum daginn.

Þingflokksfundur hófst eftir hádegi. Rétt áður en hann hófst ákvað ég að segja af mér formennsku í þingflokknum, tilkynnti Jóhönnu Sigurðardóttur það nokkrum mínútum fyrir fundinn og hópnum það í byrjun hans. Jóhanna taldi mig ekki þurfa að gera þetta og lagði að mér að sjá til með afsögn. Hún taldi ekki standa efni til hennar, en ég var sannfærður og þótti afar vænt um einlægan stuðning formannsins.

Þá fór ég í viðtal við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamann RÚV við hliðardyr Alþingis og tilkynnti afsögn mína og að úr þessu sæi ég ekki aðra leið til að fá tækifæri til að hreinsa mig af ávirðingum nefndarinnar en að landsdómur yrði kallaður saman. Síðan settist ég inn í þingsal í sætið mitt og hlustaði þar á ræður allra formanna flokkanna þar sem þeir fluttu viðbrögð sín við efni skýrslunnar. Það var undarlegur þingfundur og sá síðasti sem ég sat það vorið.

Eftir þetta hélt ég í íbúð foreldra minna sem þau eiga í Reykjavík og fylgdist einn með hádramatískum fréttum og magasínþáttum kvöldsins í sjónvarpinu. Það var nokkuð hrikaleg upplifun. Ég var sjálfsagt í einhvers konar sjokki án þess að átta mig fyllilega á því eða taka á því með neinum hætti. Hefði líklega átt að vera í einhverri áfallahjálp. En um þetta hugsaði ég eiginlega ekkert. Þetta bara var svona og ekkert annað að gera en að halda höfði og harka sig í gegnum veðrið.

Daginn eftir fann ég á mér að það væri réttast fyrir mig og umfjöllun málsins á Alþingi að ég tæki mér leyfi frá störfum á meðan þar til skipuð þingmannanefnd færi yfir málið. Ég vildi ekki setja þau í þá stöðu að vinna að málinu með mig innan þings. Um þetta var ég sannfærður og þurfti ekki að íhuga lengi eða ræða við marga. Ég vildi ekkert gera til að gera vinnu þingmannanna erfiðari og ákvað að víkja á meðan.

Í stuttri yfirlýsingu sem ég sendi frá mér tveimur dögum eftir að skýrslan kom út segir svo:

Fyrir Alþingi liggur það vandasama verk að vinna úr skýrslu rannsóknarnefndar þingsins um aðdraganda og orsakir efnahagshrunsins haustið 2008.

Meðal þess sem sérstök þingmannanefnd um skýrsluna þarf að vinna úr eru mál sem snúa að ábyrgð ráðherra. Slík úrvinnsla á sér engin fordæmi og brýnt er að til hennar sé vandað svo sem mest má verða og ekkert verði til þess að draga úr trúverðugleika þeirrar vinnu.

Ég tel að vera mín í þinginu á þeim tíma gæti truflað þessa vandasömu vinnu og tel því rétt við þessar aðstæður að víkja tímabundið sæti á Alþingi á meðan þingmenn komast að niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.

Björgvin G. Sigurðsson“

Tölvubréf sem ég sendi sama dag á þingflokkinn sýnir betur hvernig mér var innanbrjósts:

Sæl kæru vinir og félagar,

Vil byrja á að þakka ykkur fyrir afskaplega góða samstöðu og stuðning á þessum dæmalausu dögum. Hef ekki eitt andartak fundið fyrir öðru en góðum straumum og vinarhug af ykkar hálfu. Það er mér ómetanlegt og því mun ég aldrei gleyma. Þunga þessara daga þarf ég ekki frekar að lýsa enda erfiðir fyrir okkur öll.

Eftir að hafa metið stöðuna af þeirri yfirvegun sem í boði er undir þessum kringumstæðum er ég sannfærður um að það er Samfylkingunni og mér sjálfum fyrir bestu að ég víki af þingi á meðan þingmannanefndin vinnur úr þeim þáttum úr skýrslu RA sem snúa að ráðherraábyrgð. Er ég viss um að það gæti orðið illbærileg staða og vond fyrir okkur að ég sé á meðal þeirra 63 sem úr munu að lokum skera.

Ekkert vil ég að verði til þess að gera nefndinni erfitt fyrir né það nokkuð sem varpað geti rýrð á störf hennar. Því mun ég síðar í dag senda forseta Alþingis og fjölmiðlum tilkynninguna sem fer hér á eftir. Hef þegar tilkynnt formanni flokksins ákvörðun mína og tók hún henni vel og af skilningi.

Viðurkenni ég það vel að aldrei datt mér í hug að ég ætti eftir að lifa þá stund að skrifa félögum mínum í þingflokknum bréf þessa efnis en svona er lífið. Stundum verða brekkurnar brattari heldur en nokkurn órar fyrir.

Með bestu kveðjum,

Björgvin“

Þetta voru vatnaskil. Ég tók fyrst sæti á Alþingi í október 1999, 28 ára gamall varaþingmaður af Suðurlandi. Frá 2003 hef ég setið á Alþingi og 36 ára gamall varð ég ráðherra og oddviti flokks míns í kjördæminu. Nú var komið að kaflaskilum og þau voru ekki sársaukalaus.

En svona var veruleikinn. Það var ekki annað að gera en að fóta sig í honum og þeim aðstæðum sem komnar voru upp. Það sem eitt sinn virtist fjarstæðukenndur fáránleiki var orðinn að umgjörð hins daglega lífs.

Nú var að draga nýja víglínu og sækja fram þaðan. Uppréttur ætlaði ég að standa í lokin þrátt fyrir þær ágjafir sem mér þótti skýrslan og harkalegar niðurstöður hennar vera.

Til að komast í gegnum þessa tíma skipti miklu máli eindreginn stuðningur vina og félaga í Samfylkingunni, hvort heldur var í Suðurkjördæmi eða annars staðar. Mikil samstaða og andúð á því sem fólki fannst ranglátt hlutskipti var áberandi.

Yfir mig rigndi stuðningskveðjum sem skiptu mig miklu máli persónulega. Ein stutt og skorinorð kom frá félaga Merði Árnasyni, en fáir kunna að orða hlutina jafnvel og hann. Í tölvupósti til mín sem bar yfirskriftina Lífið sendi hann mér þessa góðu kveðju og brýningu:

„heldur áfram, félagi, hvernig sem veltist í skammtímavafstrinu. Muna á erfiðum stundum: Ganga með sjó og sitja við eld. Vertu hraustur // Mörður“

Annan póst frá Valgerði Bjarnadóttur alþingismanni fékk ég sem var – eins og hennar er háttur – kjarni málsins að mörgu leyti og kom að viðkvæmum punkti, samskiptunum við Ingibjörgu Sólrúnu og Geir.

Í bréfi sínu segir Vala:

„Kæri Björgvin.

 Þú hlýtur að gera það sem þú telur réttast og ég stend mér þér í því. Það eru ótrúlegir tímar sem við lifum. Samfélagslýsingin sem birtist í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar er sannarlega ótrúleg. Mér finnst eins og margt af því sem hafi gerst sé vegna þess að fólk áleit sjálft sig meira eða æðra verkefnunum sem því var trúað fyrir. Kannski finnst mér eitt af því ótrúlegasta í þeim efnum að forystumenn í ríkisstjórn – forystumenn í Samfylkingunni – hafi álitið að hægt væri að líta fram hjá verkaskiptingu ráðherra í ríkisstjórn og ákveða að halda upplýsingum frá þeim sem samkvæmt stjórnskipaninni er ábyrgur. Háttalag af því tagi lýsir svo miklum hofmóði, hroka og lítilsvirðingu fyrir forminu – svo ég tali nú ekki um fólki – að það tekur ekki tali.

Við Kristófer veltum því fyrir okkur áðan hvort hægt væri að áfellast eða dæma þann sem getur ekki rækt skyldur sínar vegna þess að upplýsingum er systematiskt haldið frá honum, en þeir sem það gera bera enga ábyrgð – það passar ekki inn í okkar hugsanagang.

Stundum verða brekkurnar brattar á lífsleiðinni, þær eru samt alltaf kleifar. Það styttir upp eftir erfið él – auðvitað verður manneskjan aldrei söm eftir en oftast held ég samt að vond lífsreynsla skili okkur skárri manneskjum en við vorum fyrr – ég veit að það er engin lausn í því, en samt … Þú átt marga vini sem standa með þér og því get ég lofað þér að það er alltaf leið – stundum einstigi, en þau eru örugg – út úr öllum þeim kröggum sem fólk lendir í.

Ef það er eitthvað sem ég get gert til að létta þér róðurinn þá geri ég það glöð.

Með góðri kveðju, Vala.“

Hvatningar og kveðjur á þessum tíma í lífi mínu voru vinarbragð sem ég hefði ekki í annan tíma áttað mig á hvað myndi skipta miklu máli. Þær gæddu mann krafti á þróttlausum stundum og ýttu manni áfram.

Ein sem bar nafnið Vendipunktur kom frá Guðmundi Rúnari Árnasyni nú bæjarstjóra í Hafnarfirði og er svohljóðandi:

„Sæll félagi

Það er mannsbragur á ákvörðun þinni. Setur pressuna og kastljósið á þá sem hafa verið í sukkinu.

Þessi ákvörðun mun vafalítið styrkja stöðu þína til lengri tíma.

Kveðja, Guðmundur Rúnar“

Soffía Vagnsdóttir frá Bolungarvík sendi mér einnig kjarnyrta kveðju þennan dag:

Björgvin,

Mig langar til að segja þér að ég hef, allt frá upphafi ferils þíns í stjórnmálum, hrifist mjög af þér. Mér hefur fundist þú einstaklega heill og heiðarlegur einstaklingur og koma vel fram í öllum þeim verkum sem þú hefur tekið þér fyrir hendur og unnið í þágu samfélagsins.

Ég harma mjög hvernig hræðilegir atburðir hafa komið þér í þá stöðu sem þú ert nú í. Ég er þess fullviss að það er ekki við þig að sakast, þó undarlega kunni að hljóma…

Ég er þess algjörlega fullviss að þjóðin mun þarfnast þín þó síðar verði. Öll þín framkoma og allar þínar ákvarðanir bera vott um sterka siðferðiskennd, óskaddaða, heilbrigða skynsemi og heiðarleika.

Ég vona innilega að þetta allsherjaruppgjör taki ekki langan tíma, en segi jafnframt að það er kannski allra best að koma hvergi nærri þessu meðan þetta gengur allt yfir.

Gangi þér allt í haginn og vonandi stendur fjölskylda þín öll af sér storminn.

Bestu kveðjur,

Soffía Vagnsdóttir

Bolungarvík

Kratahöfðinginn og fyrrverandi þingmaðurinn úr Keflavík, Karl Steinar Guðnason, sendi mér skeyti sem herti á mér og mér þótti mikið til um, enda Karl einn af einlægustu jafnaðarmönnum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.

Þar segir Karl:

„Sæll Björgvin,

Það var söknuður og hryggð í huga mér eftir að ég heyrði fréttina um afsögn þína. Get upplýst það að frá því þú fyrst sóttist eftir forystu fyrir Samfylkinguna hefi ég stutt þig. Ég hef alltaf verið gagnrýninn, stundum um of. Hefi það á tilfinningunni að þú hafir ekki skynjað stuðning minn, en hann hefur verið heill og mínu nánasta umhverfi ljós.

Ég styð hinsvegar ákvörðun þína núna. Ég held að þér hefði ekki verið vært í þinginu við núverandi aðstæður. Það er betra að taka frumkvæðið í stað þess að vera eltur og niðurlægður. Umræðan og heiftin er svo gríðarleg við núverandi aðstæður að erfitt er um vik.

Veit ég að ákvörðunin hefur verið erfið. Fyrir okkur er líka erfitt að missa þig –þó um stund verði. Það er svo margt sem ég hefi séð í fari þínu, sem hefði getað og getur nýst hreyfingu jafnaðarmanna.

Mundu það við þessar erfiðu aðstæður, að það koma tímar, það koma ráð. Himinninn er ekki hruninn. Framtíðin skiptir mestu máli, tækifærin sem munu bjóðast, þau bíða.

Gangi þér vel. Baráttukveðjur,

Karl Steinar Guðnason.“

Betri og hlýlegri kveðjur var ekki hægt að hugsa sér.

Oft hef ég spurt mig að því hvort ég hefði viljað komast hjá þeirri lífsreynslu sem atgangur síðustu ára hefur verið. Leó Árnason góður kunningi og framkvæmdamaður á Selfossi, spurði mig að þessu í spjalli okkar skömmu fyrir kosningarnar 2009:

Þegar þú lítur til baka, hefðir þú viljað fá eitthvað annað ráðuneyti og staðið í vari við þessi ósköp öll? Sloppið þannig við ólgusjóinn eða er reynslan þess virði?

Svar mitt er alltaf það sama eftir vandlega íhugun: Nei, það hefði ég ekki viljað. Þetta hefur haft mikil og varanleg áhrif á mig. Maður verður aldrei samur aftur. Sumpart til góðs, en að öðru leyti ekki. Óneitanlega tekur maður út mikla reynslu og þroska þótt heldur vildi maður að það hefði gerst við aðrar aðstæður.

Eldraun sem þessi breytir manni ekki einungis verulega sem persónu heldur gagngert sem stjórnmálamanni. Hafi ég verið auðtrúa og bláeygur gagnvart ýmsum innviðum samfélagsins fyrir fall fjármálakerfisins og eftirmála þess þá hefur það tekið stakkaskiptum. Reynslan hefur ekki bara hert mig gagnvart heiminum heldur einnig fyllt efasemdum um inntak svo gott sem alls. Nú tekur maður engu sem gefnu og spyr sig um sannleiksgildi og raunveruleika allra hluta.

Annar maður með reynslu sem blés mér baráttuanda í brjóst þegar verst stóð á var sá ágæti Selfyssingur, Árni Valdimarsson. Árni er á áttræðisaldri og hafði samband við mig skömmu eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Hann bauð mér í kaffi heim til sín í Sigtúni til að fara yfir hlutina, en við þekktumst þá lítið.

Árni sagði við mig að þótt mér þætti það ótrúlegt núna myndi ég síðar meir þakka fyrir að hafa gengið í gegnum þessa tíma. „Því það eru ekki sólskinsdagarnir og meðbyrinn sem þroska mann heldur mótlætið og erfiðleikarnir, drengur minn,“ sagði Árni. Það held ég að séu orð að sönnu.