Níundi kafli: „Bankarnir verða opnaðir“

Hvernig verður með greiðslumiðlun innanlands á morgun? Virka greiðslukerfin á morgun og verður hægt að opna bankana? spurði ég Jónas Fr. Jónsson forstjóra Fjármálaeftirlitsins nóttina sem neyðarlögin voru sett. Sannast sagna þá veit ég það ekki, en vonandi, sagði hann.

Við kvöddumst með þeim orðum að hann léti mig vita um morguninn, þriðjudaginn 7. október, eins snemma og fyrir lægi hvort greiðslukerfi bankanna virkuðu og útibú þeirra yrðu öll opnuð. Helst þannig að við næðum að koma því til skila hver staðan væri áður en hefðbundinn afgreiðslutími bankanna rynni upp.

Eftir tveggja tíma svefn fór ég á fætur klukkan rúmlega sex og gerði mig kláran fyrir það sem reyndist enn einn ógleymanlegur dagur og viðburðaríkur í samræmi við það. Ég vaktaði símann hvert augnablik og beið staðfestingar frá Jónasi um það hvernig fjármálastarfsemi reiddi af eftir að stjórnendur Landsbankans afhentu Fjármálaeftirlitinu lyklavöldin að bankanum.

Klukkan var rétt um korter í átta um morguninn þegar hann loks hringdi. Yfirvegaður og hófstilltur að venju tilkynnti hann mér að yfirtakan hefði gengið vel miðað við aðstæður. Starfsfólk FME og bankans hefði verið að alla nóttina og það sem öllu skipti tókst: Bankarnir virka og starfa að venju. Greiðslukerfin virka, bankarnir verða opnaðir, hvert einasta útibú í landinu mun starfa eins og endranær, sagði Jónas. Komum því í loftið undir eins.

Öllu skiptir að koma í veg fyrir annað áhlaup og harðara á bankana og að róa starfsfólk þeirra, hélt hann áfram. Allir eiga að mæta til vinnu sinnar, sagði Jónas, sem nú fór með meiri völd í landinu en flestir aðrir og þau áttu ekki eftir að minnka næstu daga eftir því sem atburðum vatt fram.

Ég hringdi örfáum mínútum fyrir átta í skiptiborð Ríkisútvarpsins upp á fullkomna von og óvon um hvort ég yfirhöfuð næði inn eða hvernig fréttamenn RÚV brygðust við ósk minni. Ég bað konuna sem svaraði að fá samtal við fréttastofuna hvað sem það kostaði. Ég yrði að ná inn fyrir klukkan átta. Þá vantaði hana rúma mínútu í heila tímann.

Til allrar lukku gekk þetta og sem betur fer var það Heiðar Örn Sigurfinnsson sem svaraði og var vaktstjóri. Heiðar Örn er vandaður fréttamaður sem hægt var að treysta til hins ítrasta. Hann tók ákvörðun á staðnum um að hleypa mér í loftið um leið og fréttatími hófst án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætlaði að segja.

Þarna sagði ég frá því í viðtali við Hallgrím Indriðason fréttamann að Landsbankinn væri fallinn. Það voru fyrstu fréttirnar sem bárust af afdrifum bankanna eftir að neyðarlögin voru sett kvöldið áður. FME hefði tekið hann yfir um nóttina, en kerfin virkuðu og hvert einasta bankaútibú í landinu yrði opnað klukkan kortér yfir níu.

Það skipti miklu máli að koma þessum upplýsingum í loftið áður en vinnudagur hæfist til þess að halda samfélaginu í þokkalega hefðbundum gangi og forða frekara áhlaupi á bankana, sem gætu tæmst af seðlum á fáeinum klukkustundum, ef þeim dygði forðinn þá svo lengi.

Fréttin var svona:

„Við byrjum á nýjustu tíðindum af fjármálamarkaði. Við erum með Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra á línunni.

Hallgrímur Indriðason: Björgvin, hvað, hver eru svona nýjustu tíðindi af þessum málum?

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra: Bara í þessum töluðum orðum er það að ganga eftir í fullu samstarfi við Landsbankann sjálfan að skilanefnd hefur tekið yfir rekstur Landsbanka Íslands í stað stjórnar og allt hefur þetta gengið eins vel og hugsast getur… Bankarnir opna allir eins og ekkert hafi í skorist. Það eru engar breytingar gagnvart starfsfólki eða viðskiptavinum… Viðskiptavinir eiga bara sín venjulegu viðskipti við bankann…

Hallgrímur: En er Landsbankinn gjaldþrota?

Björgvin: Það náttúrlega blasir við að hann hefur farið inn í þetta ferli í fullu samstarfi við Fjármálaeftirlitið og okkur núna í nótt. Þannig að það gefst tími til að vinna úr þessum málum eins vel og hugsast getur til að stilla upp eignum og skuldum og vinna úr öllu því sem þarf að vinna úr.

Hallgrímur: En þetta þýðir sem sagt að bankinn opnar eins og venjulega og verða þá viðskiptavinir í raun og veru ekki varir við þessar breytingar að öðru leyti?

Björgvin: Nei… Útibú Landsbankans opna um allt land eins og útibú allra annarra íslenskra banka. Það er engin ástæða til að vera með neitt óðagot eða óttast um nokkur skapaðan hlut…

Hallgrímur: Hver er staða Glitnis núna?

Björgvin: Það á bara eftir að koma í ljós, þetta skýrðist í nótt… Nú verður það að koma í ljós og þeir verða að greina frá samskiptum við aðrar fjármálastofnanir eftir því sem vindur fram en þetta liggur fyrir núna að skilanefnd hefur tekið yfir rekstur Landsbanka Íslands í stað stjórnar.

Hallgrímur: Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, þakka þér kærlega fyrir þetta.

Björgvin: Þakka ykkur fyrir.“

Þarna kom í fyrsta sinn fram að Landsbankinn væri fallinn og enn væri óljóst um afdrif hinna bankanna. Þrátt fyrir að hver óvænta stórfregnin ræki aðra með ótíðindum úr áfallandi hruni tókst að halda furðumikilli ró í samfélaginu.

Það skipti einnig miklu máli til að róa ástandið þennan dag, að Össur hafði hringt í Þorstein Pálsson ritstjóra Fréttablaðsins á sunnudagskvöldinu og lagt til við hann að blaðið kæmi því vel á framfæri að allar innistæður sparifjáreigenda væru varðar án hámarks. Þorsteinn brást skjótt við og af mikilli ábyrgð. Hann stöðvaði prentun á blaðinu tafarlaust og skipti út forsíðufréttinni. Nokkur þúsund heimili fengu blað með annarri frétt, en flest með þeirri að ríkisstjórnin hefði lýst yfir að allar innistæður yrðu varðar án takmarka á upphæð, hvað sem yrði um einstaka banka.

Bankarnir urðu ekki fyrir áhlaupi þegar þeir voru opnaðir á þriðjudeginum. Einn dag síðar í vikunni bar reyndar á því að úttektir ykjust verulega, en okkur tókst að koma í veg fyrir áhlaup með þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefði haft á samfélagið.

Eftir á að hyggja er merkilegt að ekki skyldi eiga sér stað allsherjaráhlaup á bankana. Slík var óvissan og óttinn á meðal alls þorra almennings sem vissi ekkert hvaðan á hann stóð veðrið eða hvað væri að gerast. Það var ekki að undra enda vissum við ráðherrarnir ekki alltaf mikið meira, svo margt af því mikilvægasta gerðist utan okkar seilingar.

Nú tók við enn einn ótrúlegur dagur sem hélt áfram með blaðamannafundi kl. 11 í Iðnó og þar á eftir fundi í hádeginu með starfsfólki Landsbankans í höfuðstöðvum hans. Þaðan beið nánast óslitin lota funda af ýmsu tagi til þess að byrja björgunarstarfið og þróa það áfram.

Daginn eftir setningu neyðarlaganna var ákveðið að forsætisráðherra héldi blaðamannafundi næstu daga á eftir til þess að skýra stöðuna og halda talsambandi við þjóðina og umheiminn. Úr varð með hálftíma fyrirvara á þriðjudagsmorguni að ég yrði með Geir að minnsta kosti á fyrsta fundinum, sem haldinn var í Iðnó. Blaðamannafundirnir voru auðvitað í beinni útsendingu allra fjölmiðla og gengu vel, að okkur þótti. Þar tókst okkur að halda uppi samtali við þjóðina á þessum erfiðu tímum.

Ég fór ekki á þessa fundi með formlega undirbúin efnisatriði. Við Geir hittumst stuttlega fyrir hvern fund og ræddum hvernig við skiptum efnisatriðum, en auðvitað var hann með það nokkuð vel skipulagt hvað hann ætlaði að segja. Ég fékk sterk og góð viðbrögð við þessum fundum, sem haldnir voru dag eftir dag vikuna eftir fall bankanna. Ég sagði einfaldlega það á fundunum sem mér þótti mikilvægast að kæmi fram og svaraði spurningum blaðamanna eftir bestu getu. Þetta var mikil eldskírn fyrir ungan stjórnmálamann eftir stuttan tíma í embætti ráðherra. Eftir þetta þykja mér engar aðstæður erfiðar til að koma fram og flytja mál og það er fátt sem haggar mér eftir þessa óvenjulegu reynslu.

Það var mikilvæg ákvörðun að halda blaðamannafundina, en slíkt hafði aldrei verið gert áður hérlendis. Það voru jafnmikil mistök að hætta með þá of snemma og það átti stóran hlut í því andrúmi óvissu, ótta og reiði sem byggðist upp. Framkvæmdastjórar flokkanna, Skúli Helgason og Andri Óttarsson, auk aðstoðarkvenna formanna flokkanna, þeirra Grétu Ingþórsdóttur og Kristrúnar Heimisdóttur, áttu mikið í þeirri ákvörðun að halda fundina og skipuleggja þá. Þau stóðu öll þétt á bak við okkur og það var ómetanlegt að eiga þau að í gegnum þessa daga.

Í frétt Morgunblaðsins fimmtudaginn 9. október sagðist Höllu Gunnarsdóttur, þá blaðamanni og núverandi aðstoðarkonu Ögmundar Jónassonar ráðherra, svo frá einum fundanna:

„Ef nokkurn tíma hafa verið haldnir jafnstórir blaðamannafundir og þessa dagana hér á landi má ætla að það hafi verið þegar Ronald Reagan og Mikhail Gorbatsjov funduðu í Höfða 1986.

„Þegar rykið sest mun íslenska þjóðarbúið verða í miklu sterkari stöðu en áður og efnahagur landsins vonandi bæði eðlilegri og heilbrigðari en hann var áður en þetta ástand skapaðist.“ Þetta sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á blaðamannafundi í Iðnó í gær…

Fjöldi innlendra og erlendra blaðamanna var á staðnum og spurningarnar dundu á Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra. Erlendir blaðamenn spurðu mjög mikið út í mögulegt lán frá Rússum en innlendum blaðamönnum var m.a. tíðrætt um Icesave reikningana í Bretlandi og framtíðarmöguleika Kaupþings nú þegar hinir bankarnir tveir eru komnir undir stjórn ríkisins.

Íslenskir blaðamenn eiga svona stórum blaðamannafundum ekki að venjast. Sá fyrsti var haldinn á mánudag í ríkisstjórnarherberginu á Alþingi. Næsti var haldinn á þriðjudag á efri hæð Iðnó en í gær var hópurinn orðinn svo stór að neðri hæðina þurfti til. Erlendir blaðamenn halda áfram að streyma til landsins og komið hefur verið á fót sérstakri miðstöð fyrir þá í Miðbæjarskóla“.

Til marks um atganginn og hraðann þá mætti ég Þorfinni Ómarssyni í troðfullu anddyrinu í Iðnó á leið minni inn í salinn á annan fundinn í röðinni, en Þorfinnur var þá nýkominn heim úr starfi upplýsingafulltrúa á átakasvæðum erlendis. Ég er laus ef þú þarft hjálp, kallaði hann til mín yfir manngrúann. Gott að heyra, sagði ég. Hef samband á eftir, bætti ég við og nánast réð hann á því andartaki til þess að koma tímabundið og stýra fjölmiðlasamskiptum og upplýsingamálum í yfirkeyrðu ráðuneytinu.

Jón Þór Sturluson var horfinn inn í önnur störf í bili, sem fulltrúi ráðuneytisins í skipulagningu neyðaraðgerða stjórnvalda og síðar samningsgerðinni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Ég kannaðist ágætlega við Þorfinn og kunni vel við hann. Vissi að hann var yfirvegaður og fumlaus maður þegar mikið lá við. Eftir ráðslag síðar um daginn við Skúla Helgason kallaði ég á Jón Þór og bað hann að ganga frá málinu, en Skúli lagði gott orð til Þorfinns og studdi ráðninguna.

Í því æðisgengna róti sem gekk yfir samfélagið var enginn tími til að voma yfir hlutunum eða fara hefðbundnar leiðir í öllum tilvikum. Þorfinnur létti mjög á álaginu á ráðuneytið og um leið lund samstarfsmanna enda laginn við að halda uppi góðum anda þótt mikið gengi á og óvissa lægi í loftinu. Hann á það ekki langt að sækja, sonur sjálfs Ómars Ragnarssonar sem hefur létt geð þjóðarinnar áratugum saman.

Stóratburðir létu ekki á sér standa, en stærsta áfallið þessa vikuna var fall Kaupþings. Framan af vikunni héldum við í vonina um að sá banki myndi standa storminn af sér. Eins og áður var nefnt hafði Seðlabankinn lánað honum í upphafi vikunnar 500 milljónir evra með allsherjarveði í danska bankanum FIH. Vonin um björgun Kaupþings varð hins vegar að engu þegar bresk stjórnvöld tóku dótturfélag þess yfir með ótrúlega óvæntum og ofbeldisfullum aðgerðum.

Þriðjudagskvöldið 7. október kom Davíð Oddsson seðlabankastjóri í alræmt Kastljósviðtal við Sigmar Guðmundsson þar sem hann lét ýmislegt flakka.

Í viðtalinu sagði seðlabankastjórinn Íslendinga ekki ætla að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum og flutti um margt svipaða ræðu og yfir ríkisstjórninni vikunni áður.

Margir skildu þetta svo að hann væri einnig að dæma Kaupþing af, sem á þeirri stundu stóð þó enn lifandi.

Ég held ekki að Davíð hafi farið í viðtalið til að veifa svipunni yfir einum eða neinum, til dæmis Kaupþingi, eins og sumir héldu fram í umræðunni sem geisaði í kjölfar viðtalsins. Í kjölfar yfirtökunnar á Glitni var strax sótt mjög harkalega að honum og ábyrgð á hruninu ekið á hann úr öllum áttum. Efalítið hefur hann ekki talið sig eiga annarra kosta völ en verjast af hörku. Lengi á eftir var grimmilega deilt um hvaða áhrif viðtalið hefði haft á ákvörðun breskra yfirvalda um að fella dótturfélag Kaupþings í Lundúnum. Margir voru þeirrar trúar að yfirlýsingar Davíðs hefðu átt þátt í ákvörðun breskra stjórnvalda.

Rétt skal þó vera rétt og fram hafa komið upplýsingar, t.d. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um að allt aðrar ástæður hafi ráðið ákvörðun Bretanna. Er þar sérstaklega vísað til ótta þeirra og grunsemda um óeðlilega fjármagnsflutninga, hvað svo sem rétt reynist í því þegar upp er staðið.

Daginn eftir, miðvikudaginn 8. október, settu bresk stjórnvöld Singer & Friedlander í þrot, einan breskra banka.

Í umsögn þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir m.a. svo um aðdragandann að því að Kaupþing féll:

Í lok kaflans fer rannsóknarnefnd Alþingis yfir fall Kaupþings banka hf. og beinir sjónum sínum einkum að þætti dótturfélagsins Kaupthing Singer & Friedlander (KSF) í því. Atvik sem tengdust KSF voru mest afgerandi um fall bankans að mati nefndarinnar, en lausafjárstaða bankans hafi tekið að versna frá miðjum september 2008 við fall Lehman Brothers. Rannsóknarnefndin bendir á að bæði Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafi sakað starfsmenn KSF og Kaupþings um ólögmæta fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands í samtölum við Geir H. Haarde án nánari skýringa.“

Í Morgunblaðinu föstudaginn 10. október 2008 var frétt um fall bankans undir fyrirsögninni Vonbrigði að fara inn í Kaupþing. Í henni segir:

„Það voru gríðarleg vonbrigði að Fjármálaeftirlitið skyldi þurfa að taka yfir rekstur Kaupþings líkt og hinna bankanna tveggja enda stóðu vonir til að bankinn gæti staðið af sér efnahagsólgusjóinn. Þetta kom fram í máli Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, á blaðamannafundi í Iðnó í gær og Geir H. Haarde forsætisráðherra tók í sama streng.

„Staða bankans var sterk“, sagði Björgvin og vísaði í lán frá Seðlabankanum. „En skjótt skipast veður í lofti,“ bætti Björgvin við og sagði allt hafa gengið af göflunum í Bretlandi í fyrradag.“

Fyrir blaðamannafundinn fimmtudaginn 9. október sagði Geir við mig uppi í forsætisráðuneyti að hann myndi leggja til að bankarnir frystu þá þegar öll gengistryggð lán. Þau hefðu tvöfaldast við hrun krónunnar í september og október og væru orðin óviðráðanleg þar til úr greiddist um tilhögun þeirra í framtíðinni. Jú, það skulum við gera, sagði ég. Það mun slá á ótta margra sem upplifa fjárhagslegt altjón vegna slíkra lána.

Við þurftum síðan að beita bankana hörðu með sérstökum fyrirmælum frá viðskiptaráðuneytinu til þess að koma frystingunni í framkvæmd og það var hreint ótrúlegt hvað þeir drógu lappirnar í málinu.

Þegar ástandið fór að versna þetta haust, reiðin að aukast og ólgan að vaxa, skiptu miklu tafirnar sem urðu á samkomlagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samfylkingin taldi frá upphafi að slíkt samkomulag, ásamt umsókn um aðild að ESB, væri sú líflína út í heim sem mestu skipti að skjóta út. Það væri bókstaflega upp á líf og dauða fyrir endurreisn efnahagsins og til þess að koma á einhverju jafnvægi eftir hrunið.

Strax kom í ljós að vík var á milli stjórnarflokkanna í þessum efnum sem ýmsum öðrum. Sjálfstæðismenn, sem upphaflega voru meðmæltir liðsinni frá AGS, fóru að draga lappirnar og töldu margir að við gætum gert þetta ein. Fyrrum foringi þeirra, seðlabankastjórinn, talaði fyrir því. Aðrir sáu málið með raunsærri hætti, þar á meðal fjármálaráðherrann Árni Mathiesen, sem fáum dögum eftir fall bankanna fór út til Washington á ársfund AGS ásamt Sigmundi Sigurgeirssyni aðstoðarmanni sínum. Þaðan kom hann heim að ég tel með þá vissu, að ekki væri önnur leið út úr vandanum en að leita til sjóðsins um aðstoð.

Margt var reynt til þess að afla lánsfjárloforða til að tryggja landinu gjaldeyri, en strax varð ljóst að slík lán frá Norðurlöndunum, Evrópu og Bandaríkjunum voru öll bundin við samkomulag okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lausn á Icesave-deilunni.

Eitt af úrræðunum var að leita til Kína eftir neyðarláni til þess að koma okkur af stað aftur og eyða óvissunni um stöðu landsins. Þar var tengslum forsetans beitt óspart og Ólafur Ragnar fenginn til þess að tala við ráðamenn og biðja um aðstoð. Allt kom fyrir ekki. Ekkert gekk án þátttöku Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, líkt og Samfylkingin hafði talað fyrir innan ríkisstjórnar frá því að hrunið skall á og öll sund lokuðust.

Davíð Oddsson beitti sér gegn samningum við AGS af mikilli hörku og Rússalánið fræga, sem tilkynnt var, en aldrei var og aldrei varð, er skýrasta birtingarmynd þeirrar afstöðu. Honum þótti þetta „stigma,“ eins og Geir orðaði það við okkur Össur, brennimark um hversu illa hefði til tekist við að byggja upp öflugt og sjálfbært efnahagslíf á Íslandi. Það var að vísu rétt, en staðreyndin var einfaldlega sú að efnahagslífið var nú ein rjúkandi rúst.

Geir íhugaði vandlega fyrir blaðamannafund okkar í Iðnó þann 8. október að segja frá því að til stæði að hefja viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég veit enn ekki af hverju hann hætti við að koma því á framfæri á fundinum, en vitaskuld vissi ég af andstöðu seðlabankastjórans. Altjent leið fundurinn, mér til mikillar undrunar, án þess að forsætisráðherra kynnti það sem mestu skipti: Að viðræður myndu fara fram við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um samkomulag um endurreisn efnahags landsins þar aðalatriðið var að koma aftur verði á krónuna.

Fáum dögum síðar var ég í skyndi boðaður á fund í forsætisráðuneytinu með Geir, Árna og Össuri, ásamt tveimur fulltrúum gjaldeyrissjóðsins. Talsmaður þeirra hét Paul Thomsen og virtist fær og öruggur í sínu starfi. Bankarnir á Íslandi féllu vegna þess að þeir urðu frá einkavæðingu þeirra eftir aldamótin margfalt stærri en efnahagur samfélagsins og gjaldmiðill landsins gátu með nokkru móti staðið undir, sagði Thomsen þegar hann dró saman efnahagskreppuna á Íslandi á þessum fyrsta fundi sínum með okkur.

Ísland hefur orðið fyrir fullkomnum stormi í efnahagslegu tilliti, bætti hann við. Allt lagðist á eitt til þess að feykja efnahag landsins um koll. Ævintýralegur ofvöxtur fjármálakerfis sem margfaldaðist á nokkrum árum, agnarsmár yfirspenntur gjaldmiðill sem vegna hárra vaxta og allt of hárrar gengisskráningar dró gríðarmikið af ódýru lánsfé til landsins. Loks mikil skuldsetning einkageirans með viðvarandi viðskiptahalla sem hefði átt að færa hverjum sem vita vildi heim sanninn um að í mikil óefni stefndi. Þetta var kjarni greiningarinnar sem Thomsen lagði fyrir okkur á fundinum.

Paul Thomsen átti eftir að dveljast á Íslandi meira og minna næstu tvo mánuðina meðan hann lauk gerð samkomulagsins við íslensk stjórnvöld um áætlun til þess að endurreisa efnahag Íslands. Flestir gerðu sér grein fyrir því að það væri upp á líf og dauða fyrir efnahag landsins og eina leiðin að nýju jafnvægi að leita til sjóðsins. Hefði það gengið hraðar og verið ákveðið fyrr hefði það dregið verulega úr mótmælum, ótta og reiði, sem magnaðist upp í tómarúminu og því sem virtist vera úrræðaleysi stjórnvalda.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að sömu niðurstöðu og Paul Thomsen einu og hálfu ári síðar: Ofvöxtur bankakerfisins leiddi til falls þess. Það að bönkunum skyldi leyft að margfaldast hindrunarlaust frá einkavæðingu orsakaði að þeir féllu þegar alþjóðleg efnahagskreppa skall á. Gjaldmiðillinn, fjársveltar eftirlitsstofnanir og vanburðugur Seðlabanki gerðu endanlega út um kerfið.

Fulltrúar AGS voru ómyrkir í máli um alvöru ástandsins. Þeir sögðu án málalenginga að tækist okkur ekki að stöðva fall krónunnar og koma jafnvægi á hana, hefjast handa við að hagræða í ríkisrekstri og útvega lífsnauðsynlegt lánsfé, þá væri íslenskt efnahagslíf í meiri vanda en nokkur vildi segja upphátt.

Spár þeirra um samdrátt og atvinnuleysi voru miklu svartari en reyndin varð síðar, sem undirstrikar hve farsælt og árangursríkt samstarfið við sjóðinn var. Við tóku langir og margir fundir með fulltrúum sjóðsins og sérfræðingum sem fyrir verkefninu fóru af okkar hálfu. Það voru einkum þeir Friðrik Már Baldursson og Jón Þór Sturluson, sem það gerðu af miklu öryggi.

Samstarfið við Geir var gott þessar vikur og mánuði eftir hrun, og mér þótti til um æðruleysi hans við hamfarirnar sem á dundu. Við þessar aðstæður skipti miklu að halda ró sinni og taka yfirvegaðar og skynsamlegar ákvarðanir. Allt var undir. Það verður ekki frá Geir tekið að hann hélt yfirvegun og ró, lagði sig fram um að upplýsa og hafa gott samband við forystu stjórnarandstöðunnar, og vann af þrotlausri elju myrkranna á milli. Þarna gerði enginn sér grein fyrir, ekki einu sinni hann sjálfur, að á þessum tíma átti hann líkt og utanríkisráðherra við alvarlegt mein að stríða. Í því ljósi á hann enn meiri virðingu skilda.

Bráðaaðgerðir tókust vel og í stjórnkerfinu voru unnin afrek á þessum vikum. Enginn banki hökti eða var lokað á meðan ósköpin dundu yfir. Lífið gekk þrátt fyrir allt sinn vanagang í landinu. Spár fjölmiðla um skort á brýnum nauðsynjum eins og olíu og lyfjum gengu aldrei eftir. Nú þakkar það vitanlega enginn, en rétt er að halda til haga að sá sem var verkstjórinn á meðan þjóðinni var stýrt frá því ástandi, sem margir töldu við túnjaðarinn, var Geir H. Haarde.

En eftir sat samfélag í sárum. Gjaldmiðillinn var fallinn, framundan samdráttur og aukið atvinnuleysi. Þúsundir höfðu tapað miklum fjármunum í hlutafjáreign og markaðssjóðum bankanna, aðrir lífsviðurværi sínu og jafnvægi á milli skulda og eigna. Þjóðin, sem bjó við mest lífsgæði að mati Sameinuðu þjóðanna, og var hamingjusömust allra samkvæmt alþjóðlegum könnunum, vaknaði svo að segja á einum morgni í nýrri og miklu verri veröld.

Eðlilega vaknaði fljótlega spurningin um pólitíska ábyrgð á hörmungunum.