Nítjándi kafli: Vanræktur málaflokkur

Það ríkti talsverð spenna daginn sem lokið var við samning um ríkisstjórnarsamstarf á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vorið 2007.

Vissulega voru úrslit kosninganna vonbrigði. Enginn flokkanna vann þær í raun og veru, nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn sem bætti við fylgi sitt eftir 16 ára samfellda stjórnarsetu og talsvert tap í kosningunum 2003.

Samfylkingin tapaði tveimur mönnum 2007 og stjórnarandstöðuflokkarnir náðu ekki að fella ríkisstjórnina. Þó var meirihluti stjórnarinnar naumur og Framsókn hart leikin án þingmanns í Reykjavíkurkjördæmunum og með formann sinn utan þings.

Ég var andvígur stjórnarsamstarfinu frá upphafi, en vissi að svo gæti farið að ég yrði eigi að síður beðinn að taka að mér ráðherraembætti. Ég hneigðist fremur til þess að hafna því ef það byðist, en vinir mínir og félagar í Suðurkjördæmi lögðu hart að mér að breyta þeirri afstöðu. Ég gæti ekki skorast undan slíkri ábyrgð sem oddviti flokksins í kjördæminu. Staða mín innan þingflokksins yrði bæði viðkvæm og erfið, ef ég ætlaði að sitja þar sem eins konar stjórnarandstæðingur.

Ég hlustaði vel og niðurstaðan varð að taka því jákvætt ef forystan óskaði eftir mér í ríkisstjórn. Það var að mínu mati rétt ákvörðun, þótt í ljósi eftirmálans megi vissulega efast um það.

Innan flokksins var nokkuð almenn sú skoðun að Ingibjörg Sólrún ætti að taka ráðuneyti fjármála en ekki utanríkismálin. Rökin voru þau, að fjármálaráðuneytið væri næstöflugasti mótor ríkisstjórnar á móti forsætisráðuneytinu og vildi flokkurinn halda vægi á við samstarfsflokkinn, sem færi með forsætisráðuneyti, yrðu fjármálin að koma í hlut Samfylkingar.

Flokkurinn vildi líka hafa formanninn heima en ekki í sífelldum ferðalögum enda sýndi reynslan að það gat veikt bæði formenn og flokka að hafa þá sífellt á þeytingi erlendis. Þá vigtaði það nokkuð að fyrir lá að ekki yrði farið í Evrópuleiðangur í samstjórn með Sjálfstæðisflokki. Utanríkisráðuneytið hefði því lítið gildi fyrir Samfylkinguna við þær aðstæður.

Það kom hins vegar fljótt fram að fólkið kringum Ingibjörgu Sólrúnu leit á stól utanríkisráðuneytisins sem næstþyngsta embættið, að minnsta kosti hvað virðingu snerti, og hún tók strikið þangað. Ég taldi það ranga ákvörðun og var raunar óhress með að Samfylkingin skyldi sætta sig við að ganga inn í öll gömlu ráðuneytin sem Framsókn hafði farið með. En flokkurinn kærði sig kollóttan í vímunni yfir því að hafa náð því takmarki að komast í landsstjórnina.

Þingflokkurinn kom saman til fundar á Hótel Sögu rétt fyrir boðaðan flokksstjórnarfund á sama stað til að samþykkja þátttöku í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og samstarfssamning milli flokkanna tveggja. Þar las formaður flokksins upp tillögu sína um úthlutanir ráðherrasæta. Tilkynnt var að ekki mætti gera breytingartillögur við tillögu formanns, hún yrði borin upp til samþykktar eða synjunar eingöngu.

Það var spenna í loftinu. Össur hafði sagt mér rétt fyrir fund að ég yrði ráðherra og líkast til í þessu ráðuneyti. Ekkert var þó fast í hendi og þegar til fundarins kom var ég ekki viss um hvaða ráðuneyti kæmi í minn hlut. Um viðskiptaráðuneytið vissi ég ekki margt enda hafði það ekki verið til sem sjálfstætt ráðuneyti í tvo áratugi.

Fyrr um daginn hafði formaðurinn rætt við þingmenn einslega, en ekki sýnt á spil sín að öðru leyti. Hún dró þau samtöl saman og lagði saman stuðning á bak við hvern og einn í ráðherraembættin. Í tillögunni sem Ingibjörg Sólrún lagði fyrir flokkinn var lagt til að ég yrði ráðherra nýs viðskiptaráðuneytis. Hamingjuóskir streymdu til mín frá félögum og vinum á fundinum og í minningunni er þetta bjartur og góður dagur. Ég hafði ekki hugmynd um á þeirri stundu í hvers konar háskaleiðangur ég var að leggja.

Fyrsta verkefnið sem beið var að auglýsa eftir ráðuneytisstjóra. Úr varð að ég réð öndvegiskonuna Jónínu S. Lárusdóttur, sem var starfandi skrifstofustjóri í gamla ráðuneytinu. Hún er dóttir Lárusar Jónssonar fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Suma undraði að ég skyldi ráða mér til nánasta samstarfs manneskju úr „þeirri átt,“ en mér var hjartanlega sama. Hafði mikla trú á henni frá fyrsta degi. Ég hafði spurst fyrir um hana nokkuð víða og fólk var á einu máli um að hún væri fyrirtaks manneskja og fær í sínu starfi. Hún átti líka eftir að reynast ómetanleg.

Auk Jónínu reiddi ég mig mikið á Áslaugu Árnadóttur, sem um tíma leysti hana af sem ráðuneytisstjóri. Það segir sögu um álag þessara missera að nú þremur árum síðar eru þær Áslaug og Jónína báðar hættar í ráðuneytinu og komnar til annarra starfa.

Þá réð ég Jón Þór Sturluson, doktor í hagfræði, sem aðstoðarmann minn eftir ábendingu frá sameiginlegum kunningja okkar. Þótt við Jón Þór séum jafnaldrar og eigum sama vinahóp innan Samfylkingarinnar þekktumst við lítið þegar þarna var komið.

Jón Þór kom inn með mikla þekkingu á málefnum ráðuneytisins og var mér ómetanlegur allan tímann, fyrir utan að vera góður félagi og skemmtilegur vinur. Hann hafði eins og ég mikinn áhuga á neytendamálum og hélt um alla þræði þar ásamt Atla Frey Guðmundssyni, gamalreyndum kappa sem fór með neytendamálin í ráðuneytinu.

Þetta voru ekki bara tímamót í mínu lífi, heldur tilveru ráðuneytisins. Nú var það ekki lengur deild hjá iðnaðarráðuneytinu heldur sjálfstæð stofnun með mikilvæg verkefni. Fyrir utan málefni fjármálamarkaða, sem eru aðalefni þessarar bókar, þá hýsti það líka samkeppnismál og neytendamál.

Ég var sérstaklega ánægður með það. Neytendamálin höfðu verið mér hugstæð, ég kunni þau vel eftir að hafa verið stjórnarmaður í Neytendasamtökum Íslands og hafði látið þau margoft til mín taka á Alþingi. Þá hafði Jón Þór mikinn áhuga á neytendamálum, beitti sér af alefli fyrir uppbyggingu á nýrri neytendapólitík og einhenti sér í verkefnið.

Strax í upphafi ákvað ég að byggja upp öflugt neytendaráðuneyti að norrænni fyrirmynd. Það var hið pólitíska markmið sem ég setti mér frá fyrsta degi. Þótt neytendamálin heyrðu undir viðskiptaráðuneytið höfðu þau alltaf verið pólitískt olnbogabarn. Það var brýn þörf á að taka til hendinni þar. Ráðherrar síðustu áratuga höfðu haft hugann við stóriðju og einkavæðingu banka.

Þegar var sett af stað metnaðarfull stefnumótunarvinna og víða leitað fanga, meðal annars í rótgróin neytendamálaráðuneyti Norðurlandanna. Heimsóttum við slíkt ráðuneyti í Danmörku og viðuðum að okkur miklum upplýsingum um hvernig staðið var að neytendamálum á Norðurlöndunum og reyndar mörgum ríkjum Evrópu. Við tókum líka hús á hliðstæðu Neytendastofu í Dublin. Við einsettum okkur að sjá bærilega yfir litrófið í fyrirkomulagi neytendamála sem eru á margan hátt þungamiðja stjórnmálaumræðunnar á Norðurlöndunum þegar kemur að hagsmunum fólksins í landinu.

Þessi stóri og víðfeðmi málaflokkur skiptir allan almenning í landinu miklu máli og honum þarf að sinna af myndarskap, bæði á vettvangi stjórnmálanna og innan frjálsra félagasamtaka. Markmiðið hjá mér var að breyta um kúrs og blása til nýrrar sóknar í neytendamálum með margvíslegum hætti og ekki vantaði eftirspurnina eftir slíkri vinnu.

Í ráðuneytinu fóru þeir Jón Þór og Atli Freyr fyrir þessari vinnu, eins og áður sagði. Atli Freyr er gamalreyndur úr stjórnmálum og ráðuneytinu þar sem hann starfaði áratugum saman en vinnur nú í dómsmálaráðuneytinu eftir að neytendamálin voru færð þangað. Hann var einn af meðlimum Möðruvallahreyfingarinnar, hafði barist með Ólafi Ragnari við flokkseigendafélag Framsóknar og við þreyttumst aldrei á að ræða þann umbrotatíma hvenær sem færi gafst. Með okkur tókst mikill vinskapur.

Eitt af því sem stendur upp úr þessari vinnu var fundaferð um málefni neytenda hringinn í kringum landið. Þetta voru opnir fundir og við fengum tilstyrk heimamanna á hverjum stað, þingmanna og liðs úr sveitastjórnum. Á þessum fundum var hörkufjör, þeir vöktu mikla athygli og umræður um málaflokkinn. Tilgangurinn var að kynna úttekt og stefnumörkun í neytendamálum í skýrslu sem hafði verið gefin út vorið 2008 og hafði að geyma kortlagningu þriggja háskólastofnana á stöðu og helstu markmiðum í neytendamálum.

Óhjákvæmilega urðu gjaldmiðilsmálin og verðtryggingin einnig rauður þráður í umræðunni á fundunum. Við tókum kerfisbundið inn í neytendamálin stöðu landsins í gjaldmiðilsmálum og þá hættulegu þróun sem hafði átt sér stað á umliðnum árum.

Í mínum huga voru neytendamálin hitt stóra verkefnasviðið á móti fjármálageiranum og þar settum við markið hátt. Við vildum setja lög um greiðsluaðlögun, draga úr vægi sjálfskuldarábyrgða, takmarka innheimtukostnað, stytta fyrningarfrest krafna, efla Samkeppniseftirlitið og samtök neytenda, svo sitthvað sé nefnt.

Nokkrum vikum eftir að ríkisstjórnin tók til starfa bað Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra mig að hitta sig í ráðuneyti sínu. Erindið var að benda mér á þau tvö stóru neytendamál sem hún hafði árum saman barist fyrir en aldrei komið fram. Það voru frumvörp til laga um innheimtur og greiðsluaðlögun. Setti ég þá þegar af stað vinnu við þau mál sem bæði vöktu mikla andstöðu á meðal sjálfstæðismanna enda höfðu þeir alltaf stöðvað þau í þinginu, hvenær sem þau komu fram og hver sem þau flutti.

Í nóvember 2007 settum við stóra neytendaplanið formlega af stað með samningi við þrjár stofnanir Háskóla Íslands um úttekt á stöðu neytendamála á Íslandi. Var fjöldi neytendamála færður í búning frumvarpa í ráðuneytinu og náðum við að koma sumum í gegnum þingið. Þar bar hæst endurskoðun samkeppnislaga, innheimtulög, ný lög um neytendalán og frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.

Úttekt háskólastofnananna kom út hálfu ári síðar í veglegri skýrslu sem var ætlað að marka veginn í neytendamálum út frá hagfræði, lögfræði og félagslegum þáttum. Í inngangi skýrslunnar skrifaði ég m.a.:

„Það er bæði von mín og vissa að það starf sem við höfum sett af stað í viðskiptaráðuneytinu muni skila sér í vakningu á meðal almennra neytenda, öflugri og sanngjarnari löggjöf á sviði neytendaréttar og ekki síst því að viðskiptaráðuneytið verði framvegis og til framtíðar öflugt ráðuneyti neytendamála.

Því er einkar ánægjulegt að kynna afrakstur vinnu undanfarinna mánaða í formi þessa rits um stöðu neytendamála á Íslandi sem  samanstendur af þremur skýrslum stofnanna Háskóla Íslands; Félagsvísindastofnun, Hagfræðistofnun og Lagastofnun. Hver þessara stofnana nálgast neytendamál frá ólíku sjónarhorni. Í þeirri ítarlegu rannsókn á stöðu neytendamála sem háskólastofnanirnar þrjár hafa nú skilað er gerður samanburð á neytendamálum á Íslandi og í nágrannalöndunum, innlendur neytendamarkaður greindur með tilliti til markaðsaðstæðna og landfræðilegrar sérstöðu.“

Mesta athygli vakti þó klárlega atlagan sem við gerðum að gjaldtöku bankanna – seðilgjöldum, fit-kostnaði og ýmsum öðrum viðlíka ósiðum sjálftöku í bankakerfinu. Í janúar 2008 kynnti ég niðurstöðu starfshóps sem ég hafði skipað um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku. Fulltrúi ráðuneytisins í hópnum var Sigríður Rafnar Pétursdóttir, ungur lögfræðingur sem ég hafði ráðið um sumarið. Hún tók vel utan um þetta stóra og erfiða verkefni og skilaði því af sér með miklum sóma.

Ein af mörgum niðurstöðum þeirrar vinnu var að innheimta seðilgjalda án sérstakra samninga um þau væri óheimil. Í kjölfarið sendi ég út tilmæli til fyrirtækja um að hætta að bæta þeim við aðalkröfur án sérstakra samninga um þau við hvern viðskiptavin fyrir sig.

Viðbrögð almennings voru mjög góð, en bankarnir urðu satt að segja brjálaðir. Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja sagði mér að Sigurjón Árnason Landsbankastjóri hefði orðið bandvitlaus þegar hann heyrði af þessu og vandaði mér ekki kveðjurnar. Þeim fannst ég andsnúinn bönkunum. Staðreyndin var sú að þarna hitti ég á einn sneggsta blettinn á bönkunum. Þetta var ósvífin og á köflum ólögleg gjaldtaka af viðskiptavinum bankanna, sem upp til hópa var fólk sem var í viðskiptum við sama bankann alla sína ævi.

Að kvöldi dagsins sem aðgerðirnar gegn seðilgjöldunum voru kynntar mættumst við Guðjón í Kastljósinu hjá Sigmari Guðmundssyni. Þar bar Guðjón blak af bönkunum og starfsháttum þeirra enda hans starfi að halda uppi málstað bankanna þótt vondur væri. Óánægja bankanna varð ekki til annars en að vekja athygli á framtakinu og því þarfa átaki sem gera þurfti til þess að koma skikki á starfshætti bankanna.

Seðilgjaldtakan var orðin að stórum tekjustofni fyrir bankanna. Það var einkar viðkvæmt fyrir þá að um væri að ræða sjálftöku á fé sem ekki var heimild fyrir í lögum eins og kom á daginn. Neytendastofa fékk síðan það hlutverk að fylgja þessu eftir og hafði víðtækar heimildir til að bregðast við því ef lögum yrði ekki fylgt.

Annað stórt mál sem ég kynnti var um greiðsluaðlögun fólks í fjárhagserfiðleikum, hið gamla baráttumál Jóhönnu Sigurðardóttur.

Málið fór ég með inn í ríkisstjórn, en þar fékk það heldur kaldranalegar viðtökur hjá samstarfsflokknum. Það var stöðvað með því að beita réttarfarsnefnd gegn því og sömuleiðis að strangt til tekið heyrðu lögin undir dómsmálaráðuneytið. Þar með var þetta mikla hagsmunamál neytenda lagt í salt þar til ný ríkisstjórn tók við í febrúar 2009. Nú hafa sem betur fer verið lögfestar brýnar umbætur í þessum efnum. Ég hef alltaf verið stoltur af því að hafa tekið frumkvæði í þessu mikla hagsmunamáli almennings.

Annað mikilvægt mál lagði ég fram á Alþingi sem var um innheimtukostnað og fól í sér verulega betri vernd fyrir neytendur. Það mál hafði oft verið flutt áður, fyrst árið 1999, en alltaf verið stöðvað í þinginu. Nú tókst eftir marga mánaða þóf að lögfesta þetta umbótamál. Það var síðan mitt síðasta verk sem ráðherra í janúar 2009 að setja reglugerð og virkja þannig lögin.

Markmiðið með lögunum er að setja ákveðnar reglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun. Þannig mætti draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi, t.d. með því að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar og þóknunar, sem heimilt er að krefjast.

Á þinglokadegi vorsins urðu frumvarp til innheimtulaga, sem og frumvarp um neytendalán og frumvarp til breytinga á samkeppnislögum, öll að lögum. Þar með urðu alls 17 frumvörp frá viðskiptaráðuneytinu að lögum þann veturinn. Þótti okkur það harla góður árangur en starfsfólk ráðuneytisins hafði unnið myrkranna á milli þetta fyrsta ár nýrrar ríkisstjórnar til að koma þessu til leiðar.

Athyglin á þetta uppbyggingarstarf hvarf í einu vetfangi þegar hamfarir vorsins og haustsins í efnahagsmálum tóku sviðið yfir. Margt hafði þó áunnist á stuttum tíma og búið var að gera áhlaup að því að gera neytendamálin að öflugum pólitískum málaflokki. Vonandi kemur að því að aðrir stjórnmálamenn taka málið upp á sína arma og halda vinnunni áfram. Til þess er nú nægur efniviður og fyrir liggur kortlagning á málaflokknum, hver staðan er og hvað þarf að gera til að ná fram umbótum til handa íslenskum neytendum í samfélagi fákeppni, fámennis og rótgróinnar einokunar á mörgum sviðum.

Samkeppnismálin eru önnur hlið á neytendamálum og heyra einnig undir viðskiptaráðuneytið. Við lögðum talsverða vinnu og natni í þau mál. Ekki dró úr að forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, var kappsamur og einbeittur í að ná árangri í málaflokknum.

Okkur tókst að endurbæta umtalsvert samkeppnislögin með því að auka verulega valdheimildir eftirlitsins til þess að rifta samruna fyrirtækja og koma í veg fyrir þá. Einnig lögðum okkur fram um að fá meira fé til eftirlitsins sem var háð fjárlögum, en ekki mörkuðum tekjustofnum eins og FME.

Ég er stoltur af því að á þessum stutta tíma í viðskiptaráðuneytinu tókst okkur að koma neytendamálum á kortið. Þau urðu mér að pólitískri ástríðu sem ég lagði mikla vinnu í. Ég efa ekki að sá dagur komi að einhver taki við keflinu og neytendamálin sem slík fái aftur byr undir báða vængi og þá stöðu sem málaflokkurinn verðskuldar.

Það verður aldrei of oft áréttað hversu mikil þörf er á öflugri Neytendastofnun, talsmanni neytenda, Samkeppnisstofnun og kraftmiklum Neytendasamtökum.

Fyrir þessum stofnunum og samtökum fer gott fólk sem ég átti fínt samstarf við í ráðherratíð minni, en þau þurfa öflugan pólitískan stuðning frá stjórnvöldum.

Það er hluti af því verkefni jafnaðarmanna að gæta hagsmuna almennings gegn sérhagsmunum.