Fyrsti kafli: „Skamma stund verður hönd höggi fegin“

Ég held að þau ætli að stefna okkur, sagði Árni M. Mathiesen við mig í símtali þriðjudagskvöldið 7. september 2010. Hann hafði haft óformlegar fregnir af starfi þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þær bentu til þess að í það minnsta hluti nefndarinnar legði til að mér, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna og Geir H. Haarde yrði stefnt fyrir landsdóm.

Mér brá við þessar fréttir. Ég trúði varla að þetta væri framundan þótt lengi hefði verið ljóst um að allt gæti gerst í því lævi blandna lofti sem hefur of lengi umlukið samfélagið.

Næstu daga var mikil spenna í loftinu. Ég hafði einsett mér að láta þingflokk Sanfylkingarinnar í friði, en af þeim sem ég heyrði í var ljóst að fólk var á ýmsum áttum. Úr fjarlægð nam ég glöggt að ókyrrð fór vaxandi innan flokksins enda var málið grafalvarlegt. Innan raða okkar voru augljóslega mjög skiptar skoðanir um hvort almennt ætti að ákæra nokkurn og þá hvern.

Fólk endasentist um litróf tilfinninganna og greinilegt var að mörgum þótti undarlegt réttlæti í því að höfða refsimál á hendur fjórum einstaklingum vegna þess sem gerðist mánuðina áður en kreppan skall á, en hafa ekki til hliðsjónar atburðarásina alla, alveg frá einkavæðingu bankanna til falls fjármálakerfisins.

Aðrir vildu sína sökudólga og meðfylgjandi landsdóm, sem ég skildi mjög vel.

Tilkynnt hafði verið að laugardaginn 11. september yrðu niðurstöður þingmannanefndarinnar kunngerðar. Það hittist svo á, að þá var réttarhelgi í uppsveitum Árnessýslu og sjö ár í röð höfum við María Ragna Lúðvígsdóttir, sambýliskona mín, boðið félögum úr Samfylkingunni á Suðurlandi heim í Skarð í réttarsúpu þennan dag.

Við ákváðum að halda í hefðina þó að fyrr um daginn ætti að birta niðurstöðu þingmannanefndarinnar og enginn vissi á hverju væri von.

Skarð er heimasveitin mín. Þangað kom ég á fjórtánda ári þegar fjölskyldan keypti ásamt vinafólki úr Búrfellsvirkjun þessa eyðijörð og gerði úr henni kostastað fyrir fjölskyldur. Þar er mitt heima, þar höfum við tugi hrossa sameiginlega og þar er fjölskyldan öllum lausum stundum.

Þennan laugardag í Skarði flugu þó margar hugsanir í gegnum kollinn á mér og fæstar snerust þær um hrossin og sveitina.

Rétt fyrir klukkan þrjú hringdi Þórunn Sveinbjarnardóttir þingflokksformaður og fyrrverandi umhverfisráðherra í mig og tilkynnti mér niðurstöðu þingmanannefndarinnar.

Siturðu ekki örugglega? spurði hún. Ég fann að henni var hreint ekki rótt. En vafningalaust sagði hún mér svo að fimm af níu nefndarmönnum legðu til við Alþingi að fjórum fyrrum ráðherrum skyldi stefnt fyrir landsdóm, Ingibjörgu Sólrúnu, Árna og Geir, og mér. Það var sárabót að tveir nefndarmenn, þau Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir, lögðu til að einungis þremur ráðherrum yrði stefnt og töldu ekki tilefni til að ég væri í hópi sakborninga.

Það er erfitt að rifja upp þetta augnablik. Fimm þingmenn, og þar af þrír þingmenn Suðurkjördæmis, vildu höfða refsimál á hendur mér. Þessi staðreynd laust mig eins og bylmingshögg, en svo undarlega sem það kann að hljóma var ég um leið gripinn undarlegum létti yfir því, að þessum langa átakatíma væri þó að ljúka. Nú færi málið inn í þingið sem lyki afgreiðslu þess. Hvernig sem færi, þá væri að minnsta kosti óvissunni að slota. Ég gæti þá alla vega byrjað nýtt líf.

Við María héldum áfram í rólegheitum undirbúningi að hinum árlega vinafagnaði í Skarði.

Um kvöldið bókstaflega fylltist húsið af fólki. Vinir og félagar streymdu að og voru líklega helmingi fleiri en árin á undan. Augljóst var að margir voru í geðshræringu út af fréttum dagsins og vildu sýna samstöðu með því að sækja okkur heim. Þetta fer vel, vinur minn, ekki kvíða lyktum þessara mála, það standa engin efni til þess, sagði Árni Gunnarson fyrrverandi þingmaður og einn veislugesta. Réttlætið mun sigra að lokum þótt það sé stundum erfitt að trúa því, bætti gamli jafnaðarmaðurinn við.

Um þetta kvöld þykir mér undurvænt. Ég mun aldrei gleyma þeim vinarhug sem hópur stuðningsmanna af heimaslóðum sýndi mér. Mitt í atganginum öllum safnaðist fólkið, sem ég hafði unnið með síðustu árin og bundist traustum vinaböndum, heim til mín til að sýna samstöðu sína í verki. Stjórnmálamaður sem á slíkan stuðning á ögurstundu er ekki fátækur.

Það var gott að gleyma þessu öllu með góðum vinum, en lokaspretturinn var þó eftir. Framundan var afgreiðsla þingsins á tillögum nefndarinnar.

Ég fylgdist með umræðunni úr fjarlægð og stóð mig að því ítrekað að vera mest sammála Þorsteini Pálssyni fyrrverandi forsætisráðherra um efni málsins, form, stjórnskipan og hið pólitíska andrúmsloft.

Ég hafði hvatt til þess um vorið að landsdómur yrði kallaður saman svo að ég fengi hreinsað nafn mitt, en þegar ég las hin svokölluðu ákæruatriði féllust mér hendur. Sá málatilbúnaður var engum sæmandi, allra síst Alþingi ef það ætlaðist til þess að vera tekið alvarlega.

Atla Gíslasyni formanni þingmannanefndarinnar gekk heldur ekki vel þegar komið var að efnislegri umræðu um ákærurnar að útskýra orsakasamhengið á milli gjörða ráðherra og hrunsins. Hvað þá við að sýna fram á að meiri líkur en minni væru á sekt en sýknu, sem er þó forsenda þess að ákært sé í sakamáli.

Vandi Atla og hans skoðanasystkina lýsti sér vel í því sem hann sagði í viðtali á Bylgjunni 22. september:

„Ég hef nefnt ýmislegt sem hefði mátt gera… Það hefði mátt skipa bönkunum tilsjónarmenn strax vorið 2008, þá hefði hrunið hugsanlega orðið minna. Það hefði verið hægt að takmarka tjónið. Það hefði þó ekki breytt því að hrunið hefði orðið.“

Drottinn minn dýri, hugsaði ég þegar ég hlustaði á Atla. Tilsjónarmenn með bönkunum hefðu vitaskuld markað tafarlaust fall þeirra. Atli játti því síðar í þinginu að það væri rétt, en fullyrti hins vegar að það hrun hefði orðið þjóðinni ódýrara en það sem brast á í október.

Mér fannst ekki heil brú í rökfærslu helsta hugsuðarins á bak við ákærurnar. Átti ríkisstjórnin virkilega að hafa frumkvæði að því vitandi vits með stjórnvaldsaðgerð að fella bankana alla saman í stað þess að reyna að bjarga þeim og draga úr hættunni á falli þeirra? Aldrei fundust mér orð Ingibjargar Sólrúnar um einbeittan ákæruvilja eiga eins vel við og þegar Atli birti með þessum orðum skilning sinn á grundvelli ákærunnar sem hann hafði forystu um.

En svo kom að því. Upp rann dagurinn þegar þingið bjóst til að leiða til lykta þetta umdeilda átakamál. Fyrirfram var engin leið að ráða í niðurstöðuna. Fullkomin óvissa var um afstöðu nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins og við blasti að atkvæði þeirra réðu úrslitum um hvort og þá hverjir færu fyrir landsdóm. Ljóst var að þingmenn hinna flokkanna þriggja kysu allir eftir flokkslínu.

Að morgni dags taldi ég taldi líklegra að tillögurnar yrðu felldar þótt mjótt yrði á munum. Fullyrt var í fjölmiðlum að ekki færri en fimm framsóknarmenn væru á móti því að ákæra. Það vissi þó enginn með sanni. Óvissan var nánast óbærileg þegar kom að atkvæðagreiðslunni.

Mér var ómögulegt að halda kyrru fyrir. Atkvæðagreiðslan átti að fara fram klukkan fjögur í eftirmiðdaginn þriðjudaginn 28. september. Ég ók frá Selfossi upp í Haukadal og þaðan sem leið lá heim í Skarð. Ég hlustaði á upphaf atkvæðagreiðslunnar í útvarpinu í bílnum. Fyrst var tekin fyrir tillaga Atlanefndarinnar um að ákæra Geir.

Ég lagði bílnum út í vegkantinn og hlustaði nánast stjarfur á nafnakallið. Fyrst kom upp nafn Helga Hjörvar. „Þingmaðurinn segir já.“ Ekki benti byrjunin til þess að þetta færi vel.

Já-in og nei-in féllu til skiptis og ég missti þráðinn. En þegar atkvæði Skúla Helgasonar, Sivjar Friðleifsdóttur og Birkis Jóns Jónssonar voru öll fallin með ákærum á Geir lék enginn vafi lengur á niðurstöðunni.

Atkvæðin um Geir féllu 33-30. Í fyrsta sinn í sögunni hafði Alþingi ályktað að stefna fyrrverandi ráðherra fyrir landsdóm. Það fyrsta sem flaug í hug mér var: Verra en ekkert. Frekar við öll en hann einn. Þetta er ranglátt.

Ég var á þeirri stundu sannfærður um að fyrst að þingið hafði samþykkt ákæru gegn Geir færum við hin þrjú með honum. Að minnsta kosti eitthvert okkar.

Skamma stund verður hönd höggi fegin, sagði Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu þennan dag eftir að úrslit lágu fyrir um Geir Haarde. Það var vel valin tilvitnun í Njálu.

Ég hlustaði eins og í leiðslu á það sem eftir var atkvæðagreiðslunnar. Tillögur um að ákæra Ingibjörgu og Árna voru felldar, en ég var síðastur.

Áður en að síðustu atkvæðagreiðslu kom kvaddi sér hljóðs Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Það kom mér ekki á óvart. Ég hafði haft spurnir af ítrekuðum skilaboðum sjálfstæðismanna til okkar jafnaðarmanna í þá veru, að ef við greiddum atkvæði með því að Geir Haarde yrði ákærður, þá myndu þeir sitja hjá þegar kæmi að okkur Ingibjörgu Sólrúnu. Það myndi duga til að senda okkur fyrir landsdóm með atkvæðum minni hluta þingmanna.

Morgunblaðið hafði líka komið þessum skilaboðum rækilega á framfæri í alls kyns furðufréttum úr þinginu.

Skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna var þetta ítrekað, en þá með þeim orðum að það yrði einungis ég, en ekki Ingibjörg Sólrún, sem færi með Geir fyrir dóminn.

Það var því engin tilviljun að formaður Sjálfstæðisflokksins hóf ræðu sína á þessum tímapunkti með þessum orðum:

„Þegar við greiðum atkvæði um það hvort ákæra beri fyrrverandi viðskiptaráðherra liggur fyrir að fyrrverandi forsætisráðherra mun þurfa að svara til saka fyrir landsdómi vegna ákæruatriða sem að stórum hluta voru á valdsviði og á ábyrgð fyrrverandi viðskiptaráðherra. Þar sem svona er komið er órökrétt að viðskiptaráðherra þurfi ekki jafnframt forsætisráðherranum fyrrverandi að svara til saka í þeim réttarhöldum sem framundan eru.“

Þetta hljómaði eins og upphafið að því að hótuninni yrði fylgt eftir, en svo bætti Bjarni við og vitnaði í Árna Grétar Finnsson:

„Því þarf magnað þor til að vera sannur maður,

meta sinn vilja fremur en fjöldans daður,

fylgja í verki sannfæringu sinni,

þótt freistingarnar ginni.

Réttlætinu verður ekki frekar fullnægt í þessu máli með enn frekara óréttlæti en orðið er. Þess vegna er hið eina rétta í málefni fyrrverandi viðskiptaráðherra að segja nei við ákæru á hendur honum.“

Bjarni fékk yfir sig mergjaðan reiðilestur Morgunblaðsins í leiðara skömmu síðar, sem segir sitt um ástand mála í Sjálfstæðisflokknum, en þarna hygg ég hann loks hafa fest sig í sessi sem leiðtoga flokksins, lausan undan gamla tímanum og gömlu vinnubrögðunum.

Ég upplifði þó engan létti þegar tillagan um mig var felld með 35 atkvæðum gegn 27 og hjásetu Marðar Árnasonar. Í móðu tilfinninganna fann ég fyrir óljósri gleði fyrir hönd okkar Árna og Ingibjargar, en fyrst og fremst fann ég samviskubit gagnvart Geir sem stóð einn í eldinum. Með einhverjum óskýrðum hætti fannst mér í umróti augnabliksins eins og ég hefði brugðist honum.

Ég var dapur yfir því hvernig komið væri fyrir okkur öllum og Alþingi. Því er heldur ekki að leyna að mér þótti flokkurinn minn koma frekar tættur út úr þessu afdrifaríka máli.

Sigmundur Ernir Rúnarsson fangaði líklega tilfinningar margra í atkvæðaskýringu sinni á þingi. Stórmannlegt er það ekki – svo mikið er víst, sagði hann um niðurstöðu Alþingis.

Þannig leið mér um leið og skýr þáttaskil voru orðin eftir tveggja ára erfitt tímabil. Það undirstrikaði sögulega þýðingu dagsins að sama septemberdag tveimur árum áður hafði verið ákveðið að þjóðnýta Glitni og ein afdrifaríkasta atburðarás Íslandssögunnar hófst.

Karl Th. Birgisson vinur minn hringdi í mig fyrstur eftir að úrslit voru ljós og heyrði strax á mér að ég var ekki mjög ánægður og tilfinningarnar blendnar. Ég veit að þetta er ömurlegt, en reyndu að vera svolítið ánægður, maður, sagði Kalli. Þessum kafla er lokið. Þetta hefur verið tveggja ára rússíbanareið, en nú tekur við nýr tími uppbyggingar. Þínu verkefni er ekki lokið, bætti hann við.

Nafni hans, séra Karl V. Matthíasson fyrrverandi alþingismaður, hringdi í mig daginn eftir. Alþingi hefur komist að skýrri niðurstöðu, nú eru þessi mál að baki. Stattu keikur og taktu sæti þitt á Alþingi aftur, sagði séra Karl.

Eftir atkvæðagreiðsluna sauð á þingmönnum Sjálfstæðisflokks, sem sökuðu tiltekna þingmenn Samfylkingarinnar og Framsóknar um svik og undirmál. Griðrof, sögðu sjálfstæðismenn.

Heift þeirra í garð Sivjar Friðleifsdóttur og Birkis Jóns Jónssonar var sérstaklega áberandi enda bæði gamlir félagar sjálfstæðismannana úr fyrri ríkisstjórnum.

Framsókn veltir sér upp úr forinni, sagði Geir á Stöð 2 um kvöldið, hafandi tekið þátt í því í tólf ár að byggja upp kerfið sem hrundi nokkrum mánuðum eftir að þau fóru úr ríkisstjórn.

Áköf reiði þingmanna Sjálfstæðisflokksins kom skýrt fram hjá Pétri Blöndal tveimur dögum eftir atkvæðagreiðsluna í viðtali við morgunútvarp Bylgjunnar þar sem hann lét skammirnar dynja á Ásmundi Einari Daðasyni þingmanni VG, sem hafði orðalaust greitt atkvæði með ákærum á okkur öll fjögur.

Frétt Eyjunnar af orðaskiptunum er eftirfarandi:

 „Ég er ekki sáttur við að menn ákæri án þess að segja neitt um það. Sá sem ákærir hefur þá skyldu að flytja sitt mál og útskýra á hverju ákæran er byggð. Það gerði Ásmundur Einar og fleiri þingmenn Vinstri grænna ekki. Það gerði ekki einu sinni Ögmundur Jónasson, ráðherra mannréttinda. Það var ekkert rannsakað í þessu máli,“ sagði Pétur.

Pétur taldi að umræddir fyrrverandi ráðherrar hefðu þegar fengið meira en næga refsingu. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis væri áfellisdómur yfir þeirra verkum og að neikvæð opinber umræða gegn þeim hefði verið meiri en dæmi eru um.

„Myndir þú vilja láta svona orð standa um þig í opinberu plaggi? Það hefur verið nóg að gert. En að þetta séu glæpamenn? Nei,“ sagði Pétur.

Ásmundur Einar nefndi ekki sérstaklega á hverju hann byggði sínar ákærur, en minnti á að á Íslandi hefði orðið heilt bankahrun. Það réttlætti það að menn yrðu ákærðir.

Pétur taldi þetta fráleita afstöðu. Sjálfur hefði hann verið á þingi og þokkalega að sér um fjármálakerfið, en ekki hefði hvarflað að honum að það gæti hrunið.

 „Svo spurði ég í þingsölum nokkra þingmenn hvað þeir hefðu sjálfir gert, ef þeir hefðu verið við stjórn. Þá var svarað að flytja bankana til útlanda. Geir reyndi það. Eða að styrkja gjaldeyrisforðann. Geir reyndi það líka. Þá var kannski sagt að það hefði átt að skipa bönkunum tilsjónarmenn. Þessir menn vita ekkert hvað bankar eru. Bankar ganga út á traust. Ef þeim hefðu verið skipaðir tilsjónarmenn hefðu þeir hrunið strax,“ sagði Pétur“

Um þessa ákvörðun Alþingis verður lengi deilt líkt og flest annað í aðdraganda og eftirmála efnahagslegu hamfaranna sem tefldu stöðu landsins og samfélagsins í bráða hættu haustið 2008.

Hver hefur sína sögu að segja af þessum umbrotatímum. Hér á eftir fer mín saga sem viðskiptaráðherra landsins þegar ósköpin dundu yfir.