Fjórtándi kafli: Átök um þriðju neyðarlögin

Hrun gjaldmiðilsins og skuldakreppan sem tók við er megininntak erfiðleikanna sem blöstu við þjóðinni eftir hrun. Atriði númer eitt í endurreisnaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var að stöðva hrun krónunnar. Koma jafnvægi á gengi hennar til þess að varna alhruni og óðaverðbólgu með tilheyrandi hörmungum. Þar kom að einni mikilvægustu lagasetningu í kjölfar neyðarlaganna, gjaldeyrishöftunum.

Það var neyðarráðstöfun sem færði viðskiptafrelsi í landinu aftur um marga áratugi. En annarra kosta var ekki völ. Haftalögin voru viðbrögð við neyðarástandi. Við kölluðum þau þriðju neyðarlögin.

Þegar ég hélt utan í nóvember til Kaupmannahafnar, Helsinki og Pétursborgar sem fulltrúi Ingibjargar Sólrúnar utanríkisráðherra til fundar við norræna og evrópska kollega var hafin vinna við lög um róttæk gjaldeyrishöft. Eitt af markmiðunum var að skylda útflytjendur til að flytja heim til Íslands það fé sem fékkst fyrir útflutninginn. Byggja þannig upp gjaldeyrisforða í landinu og styrkja til lengri tíma stöðu krónu og efnahags.

Þetta voru mjög róttækar aðgerðir, en þær voru rökrétt framhald af yfirtöku ríkisins á innlendri starfsemi bankanna. Engin önnur leið var fær til að halda aftur af kröftunum sem stýrðu áframhaldandi hruni krónunnar í opnu hagkerfi með frjálsu flæði fjármagns.

Áður en ég fór utan setti ég sérfræðinga úr ráðuneytinu til verka til þess að vinna drög að frumvarpinu. Þeir unnu aftur náið með sérfræðingum Seðlabankans. Össur var staðgengill viðskiptaráðherra í fjarveru minni og drögin voru send til hans. Málið var brýnt og því var þess óskað að hann færi með þau inn í ríkisstjórnina.

Í upphaflegu drögunum sem Össur fékk frá ráðuneytinu var lagt til að Seðlabanki Íslands skyldi ráða gjaldmiðlaflutningum. Össur las þetta, rak í rogastans og hafnaði því umsvifalaust að flytja málið í ríkisstjórn fyrr en hann næði í mig. Hann vildi samþykki mitt til að bera fram málið á þessu formi.

Á meðan á þessu stóð var ég á leið í lest frá Pétursborg til Helsinki. Þar sem ég tók upp símann sá ég að Össur hafði hringt mörgum sinnum og sent sms-skeyti um að hringja tafarlaust. Ég hringdi til baka og fann að það var þungt í honum vegna frumvarpsdraganna. Honum þótti mitt fólk hafa látið undan yfirgangi seðlabankastjóra sem ætlaði sér greinilega aðalhlutverk skömmtunarstjóra gjaldeyris eftir setningu laganna. Ég var á sama máli og bað hann að bíða með málið þangað til ég kæmi heim.

Á fundi evrópsku utanríkisráðherranna í Pétursborg voru allra augu á Íslandi og erfiðleikum þess. Af utanríkisráðherrunum gaf Jónas Gahr Støre, norski ráðherrann, sig mikið að mér og hafði bæði áhyggjur og samúð með Íslandi. Viðhorf hinna voru blendnari og til dæmis þótti mér Carl Bildt, sænski utanríkisráðherrann, ekki jafnblíður á manninn í samskiptum við íslenska strákinn. Hann átti þó eftir að reynast Íslendingum haukur í horni þegar fram í sótti.

Í hátíðarkvöldverði sat ég til borðs með Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa, en Lavrov hefur um árabil verið með valdamestu mönnum þar í landi. Ég spurði hann eðlilega um Rússalánið fræga. Lavrov setti hljóðan, en eyddi svo talinu nokkuð höstuglega. Það þyrfti að skoða afar vel, sagði hann. Á sameiginlegum blaðamannafundi okkar ráðherranna kvað hann ekkert að frétta af láni Rússanna og það ætti langt í land.

Einn ferðafélaga minna úr utanríkisráðuneytinu var Auðunn Atlason, vaskur maður og lipur diplómat. Þar sem við vorum staddir á fundi með öllum utanríkisráðherrum Evrópu lagði Auðunn að mér að taka hinn litríka utanríkisráðherra Frakka tali og spyrja hann um möguleika á fyrirgreiðslu til handa Íslandi. Þetta var Bernard Kouchner, gamall sósíalisti sem Sarkozy Frakklandsforseti fékk til liðs við sig í utanríkismálum. Hann lét mjög að sér kveða á fundinum.

Í kaffihléi vatt ég mér að honum. reifaði vanda Íslendinga og þörf okkar fyrir gjaldeyrislán. Samtal okkar kom þar niður að ég lét vaða og spurði hvort möguleiki væri að leita hófanna með aðstoð frá Evrópusambandinu eða einstökum löndum þess. Kouchner sagði að bragði að Frakkar ættu sjálfir nóg með sitt. Spurði svo af nokkrum alvöruþunga: Af hverju gangið þið ekki í ESB og sitjið við sama borð og þjóðir þess þegar svona áföll ganga yfir? Þetta hefði aldrei gerst ef þið hefðuð verið á evrusvæðinu, bætti hann við.

Svo mörg voru þau orð.

U m leið og ég lenti í Keflavík fórum við Jón Þór í gjaldeyrishaftamálið. Í ráðuneytinu tóku við langir fundir og grimmilegt taugastríð við Seðlabankann. Hann var staðráðinn í að halda yfirráðum yfir höftunum. Eftir mikla togstreitu og átök sem fram fóru í gegnum sérfræðinga bankans og ráðuneytisins lyktaði málinu með því, að afráðið var að leggja frumvarpið fram með þeirri meginbreytingu að Seðlabankinn skyldi hafa samráð við viðskiptaráðuneytið.

Viðskiptaráðherra var fengið ákveðið neitunarvald sem fólst í því að hann þurfti að fallast á gjaldeyrisreglur Seðlabankans fyrirfram. Þetta sefaði þá sem óttuðust að Seðlabankastjóri fengi óhófleg völd í þessum efnum að lögunum samþykktum.

Atburðarásin sýnir vel hina fullkomnu tortryggni í garð forystu Seðlabankans. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefði aldrei samþykkt slíka lagasetningu ef Davíð hefði fengið yfir málinu öll ráð. Menn sögðu umbúðalaust að honum væri ekki treystandi til að láta fyrirtæki njóta jafnræðis og yrði frumvarpið óbreytt að lögum myndi það kippa atvinnulífinu aftur í fortíðina, þar sem vildarvinir hinna innvígðu og innmúruðu ættu meira innhlaup en aðrir. Sami ótti speglaðist vel í símtölum og póstum sem bárust frá fyrirtækjum á þeim væng atvinnulífsins sem taldi Davíð vera sér andstæðan.

Frumvarpið var lagt fram eftir lokun markaða þann 27. nóvember. Málið kom eins og sprengja inn í þjóðlífið. Töluvert uppnám varð í þinginu þótt flestir sæju fljótlega nauðsyn þess og mikilvægi. Sjálfur var ég við þessar nýju og erfiðu aðstæður fullviss um nauðsyn gjaldeyrishaftanna og barðist af hörku fyrir því inn í þingflokki Samfylkingarinnar og ráðherrahópnum að lögin yrðu sett.

Í frétt í Morgunblaðsins um lagasetninguna föstudaginn 28. nóvember er fyrirsögnin: Höft til að sporna við meiri lækkun íslensku krónunnar. Í frétt Helga Bjarnasonar blaðamanns Moggans segir m.a.:

„Frumvarp um hertar reglur um fjármagnsflutninga frá landinu og gjaldeyrisviðskipti var lagt fram á Alþingi í gærkvöldi og fékk meðferð með afbrigðum frá þingskaparlögum. Fram kom í máli Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu og í athugasemdum við það, að talsverð hætta væri á að þeir sem ættu verulegar fjárhæðir í krónum legðu allt kapp á að selja slík bréf og kaupa gjaldeyri til að koma fjármunum sínum úr landi þegar möguleikar til gjaldeyrisviðskipta opnuðust á ný. Hætta væri á að gengi íslensku krónunnar lækkaði við þetta, umfram það sem annars hefði orðið. Til að stemma stigu við þessu er talin brýn nauðsyn á að grípa til tímabundinna takmarkana á fjármagnshreyfingum milli landa.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Seðlabankanum sé heimilt að gefa út reglur sem takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast… Jafnframt er Seðlabanka heimilað að setja reglur um skilaskyldu þeirra innlendu fyrirtækja sem afla gjaldeyris…

Allar þessar reglur þarf viðskiptaráðherra að samþykkja fyrirfram.“

Innan stjórnarflokkanna voru deilur um málið. Ungu haukunum í Sjálfstæðisflokknum þótti ömurlegt að standa frammi fyrir því að samþykkja strangar hömlur á flutning fjármagns til og frá landinu. Í löngum samtölum þessa örlagaríku nótt sögðust þeir sannfærðir um getu markaðsaflanna til að leysa þetta vandamál – eins og flest önnur.

Á hinum jaðrinum var þorri þingmanna Samfylkingarinnar sem leit á lögin sem aðferð Davíðs til þess að ná til sín enn meiri völdum í atvinnulífinu og nota þau til að berja menn til hlýðni. Það þurfti að lokum sannkallað áhlaup til þess að fá heimild þingflokksins til þess að flytja frumvarpið og gera að lögum í einni lotu um nóttina.

Ég lagði mjög að Helga Hjörvar og fleirum að standa ekki í vegi fyrir lagasetningunni. Hún væri algerlega nauðsynleg og hefði ekkert með Davíð Oddsson og Seðlabankann að gera. Þetta væru neyðarlög og með ákvæðinu um samþykki viðskiptaráðherra væri tryggt að ekki væri hægt að misnota þau með þeim hætti sem margir þingmenn óttuðust.

Sérfræðingar Seðlabankans sem áttu stóran þátt í samningu frumvarpsins voru vitanlega sannfærðir um að haftanna þyrfti við til þess að koma aftur verði á krónuna á meðan væri unnið úr óreiðunni. AGS var á sömu skoðun þótt hún kæmi ekki skýrt fram fyrr en eftir henni var leitað um miðja nótt af viðskiptanefnd þingsins.

Það bar þannig til að á fundi nefndarinnar þessa nótt voru bæði Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ. Þeir létu ófriðlega út af frumvarpinu og voru því andsnúnir. Þeir töldu að AGS væri á móti gjaldeyrishöftunum og vildu að minnsta kosti fresta afgreiðslu málsins þangað til afstaða sjóðsins lægi fyrir.

Ágúst Ólafur Ágústsson formaður viðskiptanefndar lét þá draga Paul Thomsen fulltrúa sjóðsins gagnvart Íslandi út af þakkargjörðarkvöldverði í Washington til að vitna símleiðis á fundi viðskiptanefndar. Eitthvað sljákkaði í þeim félögum, en ekki fóru þeir sannfærðir heim að sofa.

Gylfi Arnbjörnsson skefur yfirleitt ekki utan af hlutum og þarna um nóttina sagði hann að það eina góða við þetta mál væri að það yrði vonandi síðasta frumvarpið sem viðskiptaráðherra flytti áður en hann yrði settur af. Jón Þór, sem var staddur á fundinum til þess að skýra málið, gerði kröftuga athugasemd við ummæli Gylfa. Jón Þór stóð sem klettur að baki mér frá upphafi samstarfs okkar og til loka og þarna var honum gróflega misboðið. Hans tillegg til allra minna starfa í ráðuneytinu var mikið og samofið sögu þessari allri og verður seint gert nægilega hátt undir höfði enda er samstarf ráðherra og aðstoðarmanns mikið frá morgni til síðkvölds alla daga vikunnar.

Sérstakur þingfundur var settur um níuleytið um kvöldið og honum lauk ekki fyrr en að ganga sex morguninn eftir.

Í framsöguræðu minni við frumvarpið klukkan 20 mínútur yfir átta þetta kvöld sagð ég meðal annars:

„Horfur eru á að vöru- og þjónustuviðskipti verði hagstæð á næstu missirum, bæði vegna aukinnar framleiðslugetu útflutningsfyrirtækja og vegna þess að einkaneysla mun dragast saman sem leiðir til minni innflutnings. Miklar stöðutökur erlendra aðila eru hins vegar áhyggjuefni sem fyrr segir. Höft á fjármagnshreyfingar hafa því aðeins gildi að erlendur gjaldeyrir sem aflað er vegna útflutnings skili sér til landsins. Án slíkra takmarkana munu útflutningsfyrirtæki hafa hag af því að selja gjaldeyri til fjárfesta á hærra gengi en fæst á innlendum gjaldeyrismarkaði. Að byggja upp gjaldeyrisforða sem hægt er að nýta til að greiða niður krónulán og verðbréf sem erlendir aðilar eiga mun taka tíma.

Því er lagt til að Seðlabankinn fái heimild til að setja reglur í samráði við viðskiptaráðherra um skilaskyldu erlends gjaldeyris sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt.“

Þetta var grafalvarlegt mál, en ekki var þó allt jafnalvarlegt þetta kvöld. Ég gat til dæmis brosað yfir tölvubréfum sem fóru á milli vina minna Karls Th. Birgissonar og Árna Páls Árnasonar síðar um kvöldið. Karl átti erindi við okkur af allt öðru tilefni, en Árni Páll, sem sat í viðskiptanefndinni, svaraði því á þessa leið: „Hringi á eftir. Erum um það bil að leggja af síðustu leifarnar af vestrænu viðskiptafrelsi í landinu. Jón Bjarnason er í stökustu vandræðum – veit ekkert hvernig hann getur verið á móti þessu.“