Átjándi kafli: Ekkert er mikilvægara en mannorðið

Ekkert er mikilvægara en mannorðið. Í samanburði við það skipta veraldleg efni eða áföll litlu máli. Þorsteinn Gylfason heimspekingur kenndi mér í einni af sínum meistaralegu málstofum í Háskóla Íslands, að ekki væri til meira óréttlæti í heiminum en að rægja mann og laska mannorð hans. Hver og einn væri berskjaldaður gagnvart áhlaupi á mannorð sitt og rógur væri því versta ranglæti heimsins.

Mér hefur oft orðið hugsað til orða míns gamla meistara og þess hversu berskjaldaðir allir eru fyrir slíkum atlögum á opnum velli stjórnmála og sífelldrar fjölmiðlunar nútímans í gegnum net og ljósvaka.

Eftir að skýrsla rannsóknarnefndar kom út sökkti ég mér ofan í efni hennar og þaul las þá hluta sem snéru að mér. Hún var á sinn hátt stórvirki. En engin mannanna verk eru fullkomin. Yfir lestrinum og undir umfjöllun fjölmiðlanna sem tóku henni næstum af trúarlegri sannfæringu varð mér það umhugsunarefni hvað henni var tekið af merkilegu gagnrýnisleysi á stór og smá efnisatriði.

Eina málefnalega gagnrýnin á skýrsluna kom fram hjá Þorsteini Pálssyni, fyrrverandi forsætisráðherra. Hún var í grein sem hann skrifaði í tímaritið Þjóðmál um bók Styrmis Gunnarssonar Hrunadans og horfið fé. Þar segir Þorsteinn nefndina skila auðu um lykilspurningar varðandi bankahrunið.

Í vefritinu Pressunni var vitnað í bókardóm Þorsteins og segir þar m.a.

Sums staðar voru mótsagnirnar það miklar og stórar að undrun vekur að höfundar skuli hafa látið álitið frá sér. Rammast kveður að þeirri ályktun að eftir 2006 hafi kerfinu ekki verið forðað frá falli en samt er skoðun nefndarinnar svo gott sem bundin við síðasta árið fyrir hrun.

Hann [Þorsteinn] segir m.a. að þeir sem nefndin sakaði um vanrækslu í starfi hafi skilað mjög athyglisverðum andmælum. Þau voru ekki birt með skýrslunni, aðeins á netinu. Nefndin gaf sér ekki tíma til að meta andmælin eða tefla fram mótrökum. Margt bendir til að nefndin hafi aðeins virt andmælaréttinn að formi en ekki efni. Fengur hefði verið að því að fá umfjöllun um þetta stóra álitaefni í fyrstu bókinni um skýrsluna…

„Höfundur hefði gjarnan mátt fjalla um þetta stóra álitamál með því að svör nefndarinnar við [andsvörunum] eru bæði fátækleg og í litlu samræmi við þau sjónarmið sem gilt hafa í dómum og álitum umboðsmanns Alþingis.“

Þorsteinn segir jafnframt að nefndin hafi kosið að láta rökstuðning hanga í lausu lofti um það lykilatriði hvernig vanrækslusyndir einstakra stjórnmálamanna og embættismanna tengdust falli bankanna og hruns krónunnar.

Haft er eftir Sturlu Pálssyni, framkvæmdastjóra hjá Seðlabankanum, í hrunskýrslunni að strax í ársbyrjun 2008 hafi bönkunum ekki verið viðbjargandi – og í það vitnar Styrmir. Þorsteinn bendir á að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að bankarnir hafi verið dæmdir til að hrynja þegar árið 2006.

Þetta veki spurningar sem Styrmir hefði mátt leita svara við því að rannsóknarnefnd Alþingis skilaði „auðu um þetta, svo óskiljanlegt sem það er“.

Hvað hefði orðið ef Seðlabankinn og önnur stjórnvöld hefðu gert nákvæmlega það sem rannsóknarnefndin áfellist þau fyrir að hafa ekki framkvæmt? Hefði verið betra eða verra fyrir Ísland ef krónan og bankarnir hefðu fallið fyrr? Var unnt að ætlast til að embættismenn í Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og samstarfsnefnd ráðuneyta og þessara stofnana tækju slíka ákvörðun? Höfðu stjórnmálamenn nægjanlega sterk rök til að fella bankana í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að verra hlytist af síðar? […]

Ennfremur hefði verið gagn að umfjöllun um þá stóru spurningu hvort rökrétt samhengi sé í vanræksludómum nefndarinnar vegna athafna og athafnaleysis á árinu 2008 og þeirrar niðurstöðu að bönkunum hafi ekki verið viðbjargandi eftir 2006.“

Þetta eru umhugsunarverðar athugasemdir. Ég er þeim sammála að stærstum hluta og undan sjónarhorni Þorsteins Pálssonar er fróðlegt að skoða stuttlega það sem að mér snýr í rannsóknarskýrslu Alþingis. Það kann að þreyta lesandann, en ég geri það samt í trausti þess að efnisatriði málsins skipti á endanum máli. Sú frásögn er ekki varnarræða, heldur miklu fremur tilraun til að varpa ljósi á raunverulegar aðstæður.

Það er gagnlegt að rifja upp aðdraganda þess að ég tók við viðskiptaráðuneytinu. Það ráðuneyti hafði verið lagt niður árið 1988 og sameinað iðnaðarráðuneytinu. Ég læt lesendum eftir að dæma hvort varð yfirsterkara með þeirri sameiningu, ráðuneyti iðnaðar eða viðskipta, en vorið 2007 var ákveðið í stjórnarsáttmála, að kröfu okkar jafnaðarmanna, að endurreisa viðskiptaráðuneytið. Auðvitað var það vonum seinna í ljósi þess að fjármálaumsýsla var orðin einn umfangsmesti atvinnuvegur þjóðarinnar.

Það er fróðlegt að lesa viðhorf eins af forverum mínum í embætti, Svavars Gestssonar, um hvernig hann taldi viðskiptamálin hafa verið vanrækt í áratug. Svavar var viðskiptaráðherra 1978-79, og á að baki langan feril í stjórnmálum. Hann setti stöðu þessa litla ráðuneytis í samhengi í grein í Fréttablaðinu í júní 2010. Greinin heitir Viðskiptaráðuneytið var lagt niður og í henni segir Svavar m.a.:

„Ein skýringin á lögbrotunum í 10 ár með gengislánin er sú að mínu mati að einbeitt og hægt og bítandi unnu stjórnvöld að því markvisst og vitandi vits að leggja viðskiptaráðuneytið niður.

Það var sameinað iðnaðarráðuneytinu 1988 en ekki lagt niður með lagasetningu sem þó var reynt oftar en einu sinni. Það stöðvaði þáverandi stjórnarandstaða Alþýðubandalagsins. Rök okkar voru þau að viðskiptaráðuneytið væri mikilvægt efnahagsstjórnarráðuneyti…

Rökin fyrir því að gera viðskiptaráðuneytið minna og minna og veikara og veikara voru þau að hans heilagleiki markaðurinn ætti að sjá um sig sjálfur. Það mætti ekki trufla gangverk hans á neinn hátt. Það væru til eftirlitsstofnanir en þær ættu eðli málsins samkvæmt að vera veikar; hlutverk þeirra væri að smyrja hjól markaðarins en ekki að hægja á þeim á neinn hátt né heldur að hafa áhrif á hraðgengi þeirra.

Frá 1988 sátu fimm ráðherrar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum. Alltaf með bæði ráðuneytin í einu. Hlutverk þeirra var það aðallega að fá inn í landið erlend stórfyrirtæki – í iðnaðarráðuneytinu – og að veikja stjórnkerfin – í viðskiptaráðuneytinu. Þess vegna var enginn á vakt 2001 þegar Alþingi setti lögin um vexti; enginn fylgdi þeim eftir í stjórnkerfinu.

Enginn las lögin. Ekki í viðskiptaráðuneytinu. Ekki í Seðlabankanum. Ekki í Fjármálaeftirlitinu.

Semsé gjörsamlega ónýtt stjórnkerfi og það sem verra var: Vísvitandi ónýtt til þess að hans náð markaðurinn gæti farið á fleygiferð með himinskautum.

Þegar Björgvin G. Sigurðsson varð viðskiptaráðherra þá var ráðuneytið endurreist. 2007. En það var of seint. Þegar hann kom þar inn var ekki til fyrir hann skrifstofa, ekki ritari, ekki ráðuneytisstjóri. Varla nokkur maður sem sinnti eingöngu viðskiptaráðuneytinu. Markaðurinn átti að sjá um sig.

Frjáls, svo frjáls.

Þarna er skýringin á því að lögum var ekki framfylgt: Viðskiptaráðuneytið var varla til þessi 10 örlagaríku ár.“

Þegar viðskiptaráðuneytið var endurreist var það semsagt á byrjunarreit og engir innviðir eða umgjörð til staðar.

Í nýju ráðuneyti var stakkurinn ekki rúmt skorinn.

Stærð ráðuneytisins var heldur ekki í neinu samræmi við ábyrgð þess og mikilvægi málaflokksins. Fyrstu mánuði mína í ráðuneytinu störfuðu þar fimm skrifstofustjórar og tveir sérfræðingar. Þeim átti að fjölga, en í ársbyrjun 2008 voru þeir þó ekki nema 14 talsins.

Inn í þetta örlagaríka ár lagði ég með starfslið sem var að stórum hluta nýtt og fáir sem höfðu djúpa innsýn í völundarhús hins úttútnaða fjármálakerfis.

Hinu nýja ráðuneyti var falið að takast á við fjölþætt verkefni. Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands fór viðskiptaráðuneytið m.a. með mál sem vörðuðu verslun og viðskipti með vöru og þjónustu, fjármálamarkað, vátryggingar og vátryggingastarfsemi, vexti og verðtryggingu, fjárfestingar erlendra aðila, gjaldeyri, samkeppnismál og óréttmæta viðskiptahætti, neytendavernd, hlutafélög, einkahlutafélög, Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, fasteignakaup og sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og hugverkaréttindi á sviði iðnaðar, svo að nokkuð sé talið.

Þá heyrðu undir ráðuneytið fimm stofnanir, Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið, Einkaleyfastofa, talsmaður neytenda og Neytendastofa.

Málaflokkar nýja ráðuneytisins voru margir, en ekki endurspeglaðist það í fjölda starfsmanna. Fjármálageirinn hafði þanist út og í raun hefði því fjöldi sérfræðinga átt að starfa við þann málaflokk einan í ráðuneytinu. Því var þó aldeilis ekki að heilsa.

Það er kannski skýrasti vitnisburðurinn um stöðu og vægi bankamála og eftirlits að í ráðuneytinu, sem síðar var kallað bankamálaráðuneyti, fór aðeins einn sérfræðingur með þau málefni vorið 2007. Það var Kjartan Gunnarsson, skemmtilegur reynslubolti og vinnuhestur.

Verkefnasvið hins nýja ráðuneytis var því mjög víðtækt. Það er ekki síst af þeirri ástæðu sem ég tel starfsfólkið mitt hafa unnið nánast kraftaverk við óhemjuerfiðar aðstæður og mun seint geta hrósað því nóg.

Í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar segir að mér hafi borið sem viðskiptaráðherra – „þrátt fyrir sjálfstæðar ríkisstofnanir sem störfuðu á málefnasviði viðskiptaráðuneytisins,“ eins og það er orðað – að hafa almennt eftirlit með því hver væri í stórum dráttum framvinda mála á fjármálamarkaðiog þá með það fyrir augum hvort tilefni væri til afskipta af hálfu ráðuneytisins á grundvelli gildandi lagareglna, og eftir atvikum að hafa frumkvæði að tillögugerð um breytingar á lögum og/eða umfjöllun um málið á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Þetta er efnislega hinn formlegi texti, en niðurstaða nefndarinnar segir aðeins hálfa söguna. Ég hef áður rakið að sú stofnun sem „starfar á málefnasviði ráðuneytisins“ og fer með málefni fjármálamarkaðar, Fjármálaeftirlitið, er algerlega sjálfstæð. Henni stýrir sérstök stjórn og hún hefur sjálfstæðan fjárhag, meira að segja sjálfstæðan tekjustofn, eins og áður en nefnt.

Viðskiptaráðherra hefur að lögum ekkert um dagleg verkefni hennar eða starfsemi að segja. Ég var sem viðskiptaráðherra einhvers konar „yfirmaður“ eða „ábyrgðarmaður“ FME en mér var að lögum bannað að skipta mér af daglegum störfum hennar og einstökum verkefnum. Dæmi um það hef ég áður nefnt.

Mér þótti því sérkennilegt að rannsóknarnefnd Alþingis teldi það mér til vanrækslu að hafa ekki haft afskipti af störfum Fjármálaeftirlitsins. Fyrir því skorti þó heimildir í lögum – sem betur fer. Vonandi kemur sá dagur aldrei, að stjórnmálamenn hlutist til um rannsókn eða afskipti Fjármálaeftirlitsins af tilteknum fyrirtækjum, sama hvaða nafni sem þau nefnast. Næg eru vítin til að varast.

Á ríkisstjórnarfundum, á fundum einstakra ráðherra og í samtölum ráðherra í tengslum við ríkisstjórnarfundi voru málefni fjármálamarkaðarins vitanlega margoft rædd, bæði að mínu frumkvæði og annarra ráðherra. Hitt liggur líka ljóst fyrir að utan ríkisstjórnar voru haldnir margir þýðingarmiklir fundir og mikilvægar ákvarðanir teknar, stundum án minnar þátttöku sem viðskiptaráðherra, eins og rakið er í skýrslunni.

Staða mín í því litla samfélagi, sem verður til í sérhverri ríkisstjórn, speglast í rannsóknarskýrslunni þar sem sagt er frá því, að mér hafi beinlínis hafa verið haldið utan við ráðherrafundi þar sem fjallað var um efnahagsmálefni. Hugsanlega stafar þetta af þeirri vinnuhefð sem skapast hefur í samsteypustjórnum, að nægilegt sé að oddvitar flokkanna ræði sína á milli mikilvæg mál til að fullnægja skilyrðum um eðlilegt samráð milli stjórnarflokkanna.

Vinnulag flokkanna varð um margt óheppilegt eins og kom í ljós þegar á reyndi. Innan ríkisstjórnarinnar var skýr verkaskipting á milli ráðuneytis míns og forsætisráðuneytisins í málum sem vörðuðu hugsanlegan efnahagslegan óstöðugleika. Forsætisráðherra hafði óskorað forræði á þeim málaflokki.

Hann undirbjó til dæmis og flutti frumvarp um heimild ríkissjóðs til 500 milljarða lántöku til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans vorið 2008. Það var stærsta og mikilvægasta varnaraðgerðin sem ríkisstjórnin greip til gegn hættu á lausafjárkreppu, sem Seðlabankinn taldi skömmu síðar að væri helsta ógnin sem steðjað gæti að fjármálamarkaðnum. Ekki bárust ráðuneytinu heldur tíðindi af tilboði Englandsbanka vorið 2008 um aðstoð við að koma jafnvægi á fjármálakerfið og minnka það.

Mat forsætisráðherra réði því líka hvenær hefjast skyldi handa um að nýta, eða nýta ekki, áðurnefnda heimild, eins og fram kom í umræðum innan ríkisstjórnarinnar. Það var eðlilegt þar sem undir forsætisráðherra heyrði hagstjórn og svo Seðlabanki Íslands, en lögum samkvæmt ber bankinn á hverjum tíma ábyrgð á því að greina efnahags- og fjármálalega stöðu landsins.

Hvergi var í lögum mælt sérstaklega fyrir um að forsætisráðherra skyldi hafa samráð við viðskiptaráðherra um efnahagsmálin. Honum bar því ekki nein sérstök lagaleg skylda til að ráðfæra sig við mig um málefni, sem til dæmis heyrðu undir Seðlabankann. Eftir hrun var upplýst að forysta ríkisstjórnarinnar hafði átt sex fundi með bankastjórum Seðlabankans og formanni Samfylkingarinnar. Ég heyrði ekki einu sinni af þessum fundum fyrr en eftir hrun utan eins þeirra sem Ingibjörg Sólrún greindi þingflokknum frá í febrúar.

Það segir sína sögu um hvar forysta ríkisstjórnarinnar taldi að forræði málsins væri.

Þegar upp er staðið blasir hins vegar við að þetta vinnulag er í besta falli skaðlegt. Einkum þegar kemur að atburðarás sem menn missa tökin á og verða að standa ábyrgir fyrir á eftir. Að mínu viti er það ekki síður háskalegt með hliðsjón af því hvað ráðherraábyrgðin er víðtæk og vandmeðfarin.

Þetta kom þó ekki í veg fyrir að ég beitti mér pólitískt fyrir því sem var innan míns verkahrings og skyldustarfa. Þar vegur einna þyngst lagabreyting sem heimilaði alþjóðlegum fyrirtækjum á Íslandi að gera upp í erlendri mynt og að viðskipti með hlutabréf þeirra gætu farið fram í erlendri mynt. Tilgangurinn var fyrst og fremst að draga úr áhættu og sveiflum sem sköpuðust vegna veikleika íslensku krónunnar. Í stöku alvarlegum tilvikum tók ég frumkvæði að aðgerðum, sem ég hafði strangt til tekið ekki heimild til, eins og um hollenska bankann NIBC.

Mér urðu vitanlega líka á mistök, en í erfiðri stöðu lagði ég mig fram eins og ég gat best.

Útrás bankanna hafði verið lofsungin gagnrýnislaust um allt samfélag. Af stjórnmálamönnum, fjölmiðlum og fræðasamfélaginu. Fáir beindu sjónum að brestunum sem kerfið hvíldi á.

Inn í þetta umhverfi gekk ég og gerðist sannarlega sekur um gagnrýnisleysi á starfsemi bankanna. Sérstaklega á fyrstu mánuðunum í ráðuneytinu. Þegar frá leið og ég náði betur utan um verkefnasvið ráðuneytisins rann raunveruleikinn upp fyrir mér og ég fór að tala fyrir því að annaðhvort yrðu bankarnir að minnka eða Ísland að tengjast evru eða taka hana upp. Jafnframt áttaði ég mig á mikilvægi þess að efla Fjármálaeftirlitið stórum og setja því nýja stjórnarforystu eins og áður er lýst.

Eina afleita grein skrifaði ég bönkunum til varnar eftir erlenda gagnrýni á þá haustið 2007. Mikið sá ég eftir henni enda var ég laminn með henni miskunnarlaust – eins og ég átti skilið. Greinina birti ég í Viðskiptablaðinu 20. desember 2007 undir heitinu Útrás og árangur bankanna.

Þar lagðist ég í harða vörn fyrir bankana eftir þrýsting um að gera það til að minnka líkurnar á áhlaupi á þá ytra í kjölfar gagnrýni. Greinin er líklega sú versta sem ég hef birt og af henni er ég allt annað en stoltur.

Í henni sagði meðal annars:

„Í árslok 2006 má áætla að hlutdeild fjármálafyrirtækja hafi numið um 10% af landsframleiðslu og verðmæti útflutnings þekkingar og þjónustu um 60 milljörðum. Í fyrra komu um 52% af tekjum viðskiptabankanna erlendis frá og þótt erlendar tekjur vátryggingafélaga séu enn ekki svipur hjá sjón miðað við viðskiptabankana stefnir þróunin þar í sömu átt. Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að útrás fjármálageirans hefur orðið afgerandi þýðingu í okkar efnahagslífi.

Íslensku bankarnir hafa sums staðar sætt nokkurri gagnrýni undanfarið erlendis. Sérstaklega fyrir að vera ekki nógu burðugir og um of háðir skammtímafjármögnun. Um forsendur gagnrýninnar sem skapaðist vorið 2006 hefur verið fjallað um rækilega, meðal annars af Fredrik Mishkin og Tryggva Þór Herbertssyni. Niðurstaðan er sú að gagnrýnin var að verulegu leyti tilhæfulaus. Hins vegar var ljóst að bankarnir þyrftu að fjármagna sig betur og til lengri tíma og að koma þyrfti betur á framfæri upplýsingum um rekstur þeirra.

Athygli vekur þó að háværasta gagnrýnin kemur frá samkeppnisaðilum bankanna á erlendum vettvangi. Löngum hafa sérfræðingar Danske bank haft horn í síðu íslensku bankanna en fyrir skemmstu bættust finnskir bankamenn í „grátkórinn“.

Nýleg ítarleg úttekt á stöðu þeirra og íslenska fjármálakerfisins alls, eftir þá Friðrik Má Baldursson og Richard Portes, gefur til að minnta ástæðu til að ætla að staðan sé tiltölulega góð í alþjóðlegu tilliti.

Ásakanir þessar eru alvarlegar þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum. Sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum. Ítarleg greining þessarra tveggja lykilstofnanna gefur ekkert annað til kynna en að íslenska bankakerfið sé mjög stöndugt.

Til að fara yfir stöðuna og til að efla samvinnu stjórnvalda og fjármálafyrirtækja um fjárfestingar erlendis mun viðskiptaráðuneytið kalla til fundar með Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráði í janúar. Ætlunin er að skapa varanlegan vettvang fyrir slíkt samstarf og verður janúarfundurinn fyrsta skrefið í þá átt.“

Þetta var ekki góð grein, en allar niðurstöður hennar byggðust þó á mati, úttektum og áliti þar til bærra stofnana og færustu hagfræðinga. Það gleymist nefnilega oft hversu sammála eftirlitsstofnanir og erlend matsfyrirtæki voru um að íslenska bankakerfið stæði býsna vel. Það dregur þó vitanlega ekki úr því að megininntak greinarinnar var rangt.

En þessi grein stóð sem betur fer stök. Í fjölda annarra greina, viðtölum við fjölmiðla og í ræðum við ýmis tækifæri flutti ég afdráttarlaust mál um að við yrðum tafarlaust að sækja um aðild að ESB og freista þess að komast í aðildarferlinu í tengingu við evruna til þess að afstýra hættu á miklum erfiðleikum og tryggja stöðugleika til framtíðar. Afnám verðtryggingar, skaplegir vextir og stöðugt og lágt verðlag; allt hékk á þessu.

Oftar en ekki féll þessi málflutningur í grýttan jarðveg. Það pirraði marga að ungur og nýr ráðherra í ríkisstjórn skyldi tala svo opið um jafnviðkvæmt deilumál á milli stjórnarflokkanna. Bæði Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde hringdu í mig til þess að biðja mig að láta af því að ræða um Evrópumálin á þessum nótum.

Ég hlustaði auðvitað á þau. En þetta var bjargföst sannfæring mín og ég hélt mínu striki í þessum efnum með ýmsum hætti.

Eins og áður er nefnt beitti ég mér fyrir því að heimila að alþjóðleg fyrirtæki hér á landi gætu haft reikningshald í erlendri mynt og að viðskipti með hlutabréf þeirra gætu einnig farið fram í erlendri mynt. Stór hlutdeild erlendrar starfsemi í rekstri bankanna leiddi meðal annars til þess að sveiflur urðu miklar bæði í eigin fé og á verði hlutabréfa, mælt í íslenskum krónum.

Til að draga úr áhættu sem þetta skapaði setti ég 19. desember 2007 nefnd þrautreynds fólks til að fara yfir lagaákvæði er vörðuðu uppgjör viðskipta með íslensk verðbréf sem skráð eru í erlendri mynt. Ég lagði mikla áherslu á að tillögum yrði skilað sem allra fyrst og nefndinni tókst að skila af sér fyrir lok febrúar 2009. Með góðri samvinnu við Alþingi urðu tillögur hennar að lögum í lok maí 2008. Kauphallarviðskipti í erlendri mynt náðu þó ekki að vinna gegn hruninu því tæknileg úrvinnsla nýju laganna var enn í mótun á vettvangi Kauphallarinnar og Seðlabanka Íslands þegar það brast á.

Þetta má kalla praktísk viðbrögð við þeirri stöðu, að stóra viðfangsefnið í íslenskum efnahagsmálum – hvernig koma mætti hér upp stöðugum gjaldmiðli – var ekki bara óleyst heldur var ekkert í sjónmáli um hvernig stjórnarflokkarnir hygðust komast að niðurstöðu í því.

Ég dreg ekki dul á það, að mér voru áreiðanlega mislagðar hendur. En ekki af því að ég hafi ekki reynt eins og ég gat og lagt mig fram. Einhvern tíma fellur rykið til jarðar og þá geta menn dæmt um fortíðina af yfirvegun og hlutlægni.