Frá því að ég fór að velta stjórnmálum fyrir mér á unglingsárum tók ég strax afstöðu með hreyfingunum vinstra megin við miðjuna. Varð jafnaðarmaður frá fyrstu stundu. Alltaf mislíkaði mér samt yfirlætið, vandlætingin og forsjárhyggjan sem mér þótti leggja af málflutningi margra þeirra sem lengst voru til vinstri og tilheyrðu Alþýðubandalaginu, þótt ég kynni vel að meta kappa á borð við Svavar Gestsson, Ólaf Ragnar Grímsson og Ragnar Arnalds.
Frjálslynd lýðræðisjafnaðarstefna í anda Vilmundar Gylfasonar voru pólitísku tónarnir sem náðu til mín. Því studdi ég Alþýðuflokkinn í þeim tvennum fyrstu kosningum sem ég tók þátt í með einhverjum hætti árin 1987 og 1991, en þá var Vilmundur ekki lengur á velli.
Ekki var kratisminn innrættur heima fyrir með beinum hætti þar sem ég var ekki viss um hvar foreldrar mínir stóðu í pólitík fyrr en ég fór að pæla í því. Fann þó að þau voru vinstra megin við miðju. Sigurður pabbi minn Alþýðuflokksmaður, en Jenný mamma mín nær Kvennalista og Alþýðubandalagi. Aftar en það var pólitíski uppruninn býsna blandaður. Björgvin Benediktsson prentari, föðurafi minn og hans foreldrar voru reykvískir kratar, Guðný S. Sigurðardóttir hárgreiðslukona og húsmóðir, föðuramma mín úr Hafnarfirði, sjálfstæðiskona út í gegn og móðurforeldrar mínir, þau Jóhann Helgason og Jóhanna Jónsdóttir, húnvetnskir bændur, félagshyggju-og framsóknarfólk frá Hnausakoti í Miðfirði. Þá eru bræður mínir þrír, Jóhann, Sigurður Unnar og Davíð, allir á sömu slóðum pólitískt og ég.
Alltaf þótti mér óskiljanlegt af hverju flokkarnir vinstra megin við miðjuna voru ekki ein breið hreyfing sem byggði upp samfélagið í sinni mynd, líkt og sósíaldemókratarnir á Norðurlöndunum. Þess í stað tryggði sundrungin sérhagsmunasinnuðum íhaldsflokki öll ráð í samfélaginu. Íhaldi sem félagshyggjuflokkarnir börðust um að stjórna með til að komast einhvern tíma til valda.
Ég tók fyrst afstöðu með flokki í kosningunum 1987. Þá að mestu fyrir tilstuðlan Jóns Áskels Jónssonar krata frá Stokkseyri, en hann og Guðbjörg heitin Kristinsdóttir kona hans bjuggu þá með fjölskyldu sinni á Skarði sem þau höfðu keypt ásamt foreldrum mínum sjö árum áður. Jón starfaði með framboðum jafnaðarmanna á Selfossi á árum áður og var sannfærður vinstri jafnaðarmaður og studdi Alþýðuflokkinn af kappi. Maður af sömu kynslóð krata og Lúðvíg A. Halldórsson tengdafaðir minn og fyrrverandi skólastjóri í Stykkishólmi. Gegnheilir lýðræðisjafnaðarmenn sem höfðu litlar mætur á öfgunum til hægri og vinstri.
Eftir kosningarnar 1995 jókst verulega undiraldan á meðal stuðningsmanna vinstri flokkanna og Kvennalista um að reyna nú í alvörunni að ná saman í eitt framboð sem yrði alvöru valkostur við íhaldið. Valdaflokk til vinstri sem byggði á því besta úr pólitískri arfleifð áa sinna. Sérstaklega jókst þessi undiralda á meðal yngra fólksins sem vildi taka þátt í stjórnmálum, en fann sig ekki í litlum og áhrifalausum hreyfingum sem lítið skildi á milli annað en kergja og persónulegur metnaður forystusveita þeirra. Þá var ljóst að annar helmingurinn í rótklofnu Alþýðubandalagi ætlaði sér til liðs við stærri heild. Var kosning Margrétar Frímannsdóttur sem formanns flokksins mikill sigur fyrir þann væng og aðra sem vildu sameina til vinstri.
Haustið 1997 var eitthvað mikið að gerast á meðal unga fólksins í flokkunum. Sigur Reykjavíkurlistans frá 1994 var vatn á myllu sameiningar og velgengni Röskvu í Háskólanum, þar sem félagshyggjufólk var sameinað undir merkjum hennar og vann hreinan meirihluta ár eftir ár, magnaði óþolið gagnvart gömlu flokkunum enn frekar. Sameinuð ætluðum við að vinna í framtíðinni.
Í október 1996 hittist stór hópur fólks á milli tvítugs og liðlega þrítugs á Bifröst í Borgarfirði til þess að ræða hvað gerlegt væri fyrir framtíðina. Fundinum stýrði sá mæti maður, Runólfur Ágústsson, sem hafði leitt lista Þjóðvaka á Vesturlandi 1995 og var þá ungur kennari við skólann.
Þarna var nánast gervöll forysta ungliða A-flokka, Kvennalista og Þjóðvaka saman komin, auk fjölda fólks utan flokkanna á borð við Vilhjálm H. Vilhjálmsson oddvita Rösvku, sem vildi taka þátt í því að móta nýja hreyfingu. Það var veður til að skapa og við smullum saman. Út úr þessu varð stór og öflugur hópur sem hinn 18. janúar 1997 stofnaði Grósku í Loftkastalanum fyrir troðfullum sal. Eftir það varð ekki aftur snúið.
Fram að þessu hafði verið spenna á meðal forystumanna flokkanna um hvað við værum að gera, unga fólkið, og hvert það leiddi flokkanna. Á stofnfundi Grósku sagði Margrét Frímannsdóttir við Róbert Marshall, sem var einn helsti foringi þessa hóps, að nú væri hún sannfærð. Við yrðum að ná þessu saman og bjóða fram sameiginlega í kosningunum 1999.
Ekki var síður mikilvægur þáttur Sighvatar Björgvinssonar, nýkjörins formanns Alþýðuflokksins, sem tók strax stefnu í átt að samruna flokkanna, dyggilega studdur af Guðmundi Árna Stefánssyni, Össuri og Rannveigu Guðmundsdóttur, sem voru í fremstu víglínu flokksins á þessum tíma. Án staðfestu Sighvatar í átt að sameiningu hefði lítið þokast þegar á reyndi.
Úr þessu, sem stundum var kallað uppreisn ungliðanna, varð sterkur hópur og góður vinskapur sem enn stendur traustum fótum. Ákveðinn kjarni þessa hóps fór til dæmis saman til Lundúna um vorið þar sem við unnum um skeið með Verkamannaflokknum og urðum vitni að glæstum sigri hans þann 1. maí það ár.
Meðal þeirra sem voru mest áberandi í þessari deiglu voru auk mín þau Róbert Marshall, Sigrún Elsa Smáradóttir, Hrannar B. Arnarsson, Þóra Arnórsdóttir, Hólmfríður Sveinsdóttir, Jóhanna Þórdórsdóttir, Hreinn Hreinsson, Gestur G. Gestsson, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Helgi Hjörvar, Aðalheiður Sigursveinsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Magnús Árni Magnússon, Flosi Eiríksson og fjöldi annarra öflugra einstaklinga sem síðan hafa verið þátttakendur í þjóðlífinu bæði í gegnum háskólasamfélagið, fjölmiðla og stjórnmálin.
Vegna áhuga míns og tengsla við flokk breskra jafnaðarmanna var kaldhæðnislegt í meira lagi og nokkuð harmrænt að það skyldi verða ríkisstjórn Verkamannaflokksins sem innsiglaði hrun íslenska efnahagskerfisins með því að setja hryðjuverkalög á Landsbankann og fella Kaupþing með stjórnvaldsaðgerð, einn banka á Bretlandseyjum.
Í júní 2007, rúmu ári áður en Gordon Brown setti hryðjuverkalögin á Ísland og lýsti það gjaldþrota, fór ég ásamt Hreini Hreinssyni til Manchester. Við fórum á aukalandsfund Verkamannaflokksins til þess að verða vitni að því þegar Gordon Brown tók við formennsku í flokknum og forsætisráðherraembættinu af Tony Blair. Ferðin var sú fyrsta utan lands eftir að ég tók við embætti ráðherra vorið 2007, en var að sjálfsögðu farin á okkar eigin kostnað.
Aðdragandinn var tíu ára samfylgd okkar Hreins og Verkamannaflokksins og mikill áhugi okkar á pólitík hans og framgöngu. Í apríl 1997 fórum við fimm saman, félagar úr Grósku, til þess að vinna með Verkamannaflokknum í aðdraganda kosninganna 1. maí það ár. Þetta vorum við Hreinn, Þóra Arnórsdóttir, Jóhanna Þórdórsdóttir og Erla Ingvarsdóttir. Við dvöldum í Lundúnum í viku og drukkum í okkur stemmninguna í kringum væntanlegan stórsigur flokksins sem varð sá stærsti sem nokkur flokkur hefur unnið þar í landi. Á kosninganótt var mikil hátíð haldin í Royal Festival Hall. Þar hittum við marga af forystumönnum flokksins á meðan beðið var eftir nýkjörnum forsætisráðherra landsins.
Blair mætti undir morgun og hélt fræga sigurræðu sína. Einn þeirra sem við tókum tali á hátíðinni var væntanlegur fjármálaráðherra Breta, Gordon Brown, sem fylgdist íbygginn með stórsigri flokksins og frama keppinautar síns og fyrrum vinar, Tonys Blair. Brown spjallaði góða stund við okkur íslensku ungkratana sem endaði með því að Hreinn nældi merki ungra jafnaðarmanna í barm þingmannsins sem gekk sposkur á svip með merkið um salinn það sem eftir lifði kvölds. Brown hittum við Hreinn ekki aftur fyrr en í Manchester tíu árum síðar.
Við endurtókum þennan leik sumarið 2001 þegar Verkamannaflokkurinn vann annan stórsigur í kosningum. Við héldum aftur út, nú ég, Katrín Júlíusdóttir og Hreinn Hreinsson. Við fórum og unnum með liðsmönnum flokksins í öðru kjördæmi í höfuðborginni en fjórum árum áður. Gengum í hús og töluðum við fólk í vafa. Báðum það að mæta á kjörstað og gerðum allt annað sem til féll í önnum kosninganna. Þetta var skemmtileg barátta þar sem unnið var „maður á mann“ eftir mikla og áralanga skipulagningu.
Við vorum fylgismenn þeirrar frjálslyndu opnunar á jafnaðarstefnuna sem flokkurinn og foringjar hans stóðu fyrir og gerði það að verkum að svo stór hluti breskra kjósenda sneri sér til hans frá íhaldinu. Verkamannaflokkurinn færði sig inn á miðjuna og varð fyrir vikið meginflokkur breskra stjórnmála.
Margt fór aflaga í stjórnartíð hans og gnæfir hörmulegt innrásarstríðið í Írak þar yfir öllu öðru. En margt gerðu þeir mjög vel þó að auðvelt sé að fordæma flokkinn líkt og margir gera nú af vandlætingu mikilli með því að úthrópa einhvern óskilgreindan „Blairisma“ sem afleita stefnu og vitlausa beygju á vegferð jafnaðarstefnunnar.
Blair og félagar fóru vissulega of langt til hægri og út af sporinu þegar leið á valdatímann. Urðu of undirgefnir markaðsöflunum og gættu ekki að þeim alvarlega háska sem taumleysi markaðshyggjunnar gæti valdið. En fyrstu árin skilaði flokkurinn umbótum á bresku samfélagi á mörgum sviðum og ber þar árangurinn í menntamálum líklega hæst. Auk stofnunar sjálfstæðra þjóðþinga í Wales og Skotlandi sem færði þessum hlutum Stóra-Bretlands aukið sjálfstæði til eigin ákvarðana. Þá vann Tony Blair afrek í friðarferlinu á Norður-Írlandi sem hafði um áratugaskeið verið sundurtætt í hryðjuverkum og borgaralegum skærum.
Fyrst og fremst komu þeir jafnaðarstefnunni aftur á landakort stjórnmálanna þó að þeir hafi ekki unnið úr völdum sínum og sigurgöngu sem skyldi. Jafnaðarmenn unnu yfirburðasigra víða um lönd í kjölfarið og virtust loks komnir til raunverulegra valda eftir langa eyðimerkurgöngu í stjórnarandstöðu, sem var um margt spegill á sorglega stöðu félagshyggjuaflanna á Íslandi.
Við vorum heilluð af uppgangi nýrra og nútímalegri stjórnmála vinstra megin við miðjuna og bárum þá strauma að einhverju leyti með okkur heim inn í þá deiglu sem var aðdragandi að sameiningu á vinstri vængnum.
Fyrir kosningarnar í Bretlandi 1997 ákváðu þeir félagar Skúli Helgason og Snorri Már Skúlason að fara til heimsborgarinnar og senda beint út þátt sinn Þjóðbrautina, sem þeir héldu þá úti á Bylgjunni. Við fimmmenningarnir úr Grósku hittum þá félaga og fórum í viðtal um gang mála í beinni á Þjóðbraut frá Lundúnum. Við Þóra og Hreinn sátum fyrir svörum í þættinum, fórum yfir þátttöku okkar í kosningabaráttunni og lýstum við því hvernig straumar lægju í borginni rétt áður en spennandi kjördagur rynni upp.
Um kvöldið var síðan haldið heim til Jakobs Frímanns Magnússonar stórkrata og tónlistarmanns og Ragnhildar Gísladóttur tónlistarkonu, en þau bjuggu þá í Lundúnum og höfðu gert um árabil. Stóðu þau fyrir skemmtilegu samkvæmi í tilefni kosninganna og hittum við margt af góðu fólki þar undir tónum nýrrar tónlistar Ragnhildar. Upp frá því hélt ég sambandi við Jakob af og til sem þá sem nú brann í andanum að rífa upp öfluga hreyfingu jafnaðarmanna úr þeim sundruðu flokkum sem fyrir voru.
Einnig höfðu viðkomu í Bretlandi þessa vikuna félagarnir Guðmundur Árni Stefánsson og séra Önundur Björnsson. Fórum við t.d. með þeim á einn af daglegum blaðamannafundum forystu Verkamannaflokksins. Þeim fundi stýrðu Gordon Brown og John Prescott varaformaður flokksins. Guðmundur Árni var þá einn harðasti stuðningsmaður stofnunar Samfylkingarinnar og ræddum við þau mál af miklu kappi í ferðinni. Guðmundur er án efa einn af bestu liðsmönnum sem jafnaðarmenn á Íslandi hafa eignast og litu margir til hans sem framtíðarforingja hreyfingarinnar ef hann legði sig í það og sæktist eftir því.
Guðmundur gerði það ekki. Átök og atburðir áranna á undan gerðu hann hægt og bítandi fráhverfan stjórnmálavafstrinu, því miður. Þegar hann og Bryndís Hlöðversdóttir hættu sem þingmenn hurfu að mínu mati af vettvangi einhverjir bestu forystumenn sem flokkurinn átti á þeim tíma.
Önundi kynntist ég vel síðar, en hann bauð tvisvar fram með flokknum í Suðurkjördæmi og bar hann góða strauma með sér enda litíkur maður og fær um margt. Önundur kom eitt sinn á þing sem varamaður og hafði Össur þá á orði að honum þætti sem hann hefði verið þar frá ómunatíð. Hann passaði svo vel við húsið, sagði Össur og hló mikið.
Í nóvember 1999 fékk ég örlagaríkt símtal frá Rannveigu Guðmundsdóttir, þá formanni hins nýstofnaða þingflokks Samfylkingarinnar. Þá hafði ég um nokkurra mánaða skeið starfað sem framkvæmdastjóri Reykvískrar útgáfu, lítils útgáfufélags í eigu Ólafs Haraldssonar og Péturs Óskarssonar, eiginmanns og bróður Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, síðar borgarstjóra og alþingismanns. Þeim köppum hafði ég kynnst vel árið áður þegar Óli braut Stúdentablaðið um og sá um útgáfu þess ásamt okkur Sæmundi Norðfjörð sem fór með auglýsinga- og markaðsmálin. Sæmundur var ástríðufullur krati sem hafði meðtekið málstaðinn af staðfestu eftir að hafa verið heimagangur hjá Jóni Baldvini og Bryndísi Schram.
Rannveig var að bjóða mér vinnu. Að koma til þingflokksins og verða framkvæmdastjóri hans. Rannveigu þekkti ég lítið nema hvað ég hafði hitt hana þegar ég tók sæti á þinginu skömmu áður sem varamaður í fyrsta sinn. Ég þáði boðið og þá hófst þriggja ára tímabil mitt sem framkvæmdastjóri flokksins sem var formlega stofnaður í maí 2000.
Þegar leið á veturinn fór af stað undirbúningur fyrir stóru stundina: Stofnfund Samfylkingarinnar og kjör fyrsta formanns flokksins. Þau Margrét S. Björnsdóttir, Ása Richardsdóttir og Ingvar Sverrisson héldu utan um undirbúning fundarins ásamt mér, Einari Má Sigurðarsyni og Aðalheiði Franzdóttur.
Fundurinn í Borgarleikhúsinu varð einn af stóru atburðunum í sögu íslenskra jafnaðarmanna. Það fór ekki framhjá neinum að straumhvörf urðu með honum í stjórnmálunum enda sátu þau saman á fremsta bekk, Gylfi Þ. Gíslason fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokksins og Adda Bára Sigfúsdóttir borgarfulltrúi, varaþingmaður og ein helsta forystukona Alþýðubandalagsins um áratugaskeið. Sameiningin var orðin að veruleika.
Daginn eftir stofnundinn bauð Ágúst Einarsson nýkjörinn formaður framkvæmdastjórnar mér að víkka út starf framkvæmdastjóra þingflokksins og verða einnig framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Það boð þáði ég og við tóku annir engu líkar enda unni nýkjörinn formaður flokksins, Össur Skarphéðinsson, sér varla hvíldar nokkra stund. Úr losaralegu kosningabandalagi skyldum við byggja pólitískt stórveldi: Jafnaðarmannaflokk Íslands.
Framkvæmdastjórastarfið var leiftrandi skemmtilegt og krefjandi. Frá kjöri Össurar sem formanns tókst gott og mikið samstarf með okkur sem þróaðist út í nána vináttu sem staðið hefur óhögguð síðan. Össur vann sem berserkur að því að koma hinum nýja flokki á legg. Frá morgni til miðnættis unnum við sleitulaust við frumstæðar aðstæður en um skeið var ég eini starfsmaður flokksins og gekk í öll verk. Ágúst Einarsson var fyrsti formaður framkvæmdastjórnar og tók Stefán Jón Hafstein við af honum. Við báða átti ég gott samstarf auk Eyjólfs Sæmundssonar gjaldkera flokksins og reyndust þeir góðir og sanngjarnir yfirmenn þótt kröfuharðir væru sem von var.
Þá voru Óskar Guðmundsson, Mörður Árnason, Hrafn Jökulsson og Einar Karl Haraldsson mjög hollir og ráðagóðir stuðningsmenn og félagar Össurar. Þeir voru alltaf mættir á vettvang þegar mikið lá við og mynduðu ásamt mér, Stefáni Gunnarssyni frá Hofsósi og Hafnfirðingunum Árna Birni Ómarssyni og Ingimar Ingimarssyni kjarnann í eftiminnilegu formannskjöri á milli Össurar og Ingibjargar Sólrúnar árið 2005.
Hrafni hafði ég kynnst vel nokkrum árum áður og hann reynst mér vel þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í blaðamennsku. Eitt af fyrstu skiptunum sem ég hitti hann var þegar Gróskuhópurinn lauk vinnudegi með því að bregða sér á veitingastað í bænum. Hrafn var þá ritstjóri Alþýðublaðsins, en ég var í hlutastarfi á Vikublaði Alþýðubandalagsins með þeim Ólafi Þórðarsyni, Arndísi Þorgeirsdóttur, Helenu Jónsdóttur, Friðriki Þór Guðmundssyni og Páli Vilhjálmssyni. Ég hafði ég verið áskrifandi að Alþýðublaðinu og þekkti til ritstjórans í gegnum skrif hans.
Hann var staddur á veitingastaðnum og tókum við tal saman. Þegar leið á kvöldið segir Hrafn við mig: Þú skrifar leiðarann á morgun. Mættu með hann upp úr hádegi upp á blað til mín.
Ég varð nokkuð forviða. Fór þó heim á Bjarnarstíginn og skrifaði leiðara um mikilvægi sameiningar jafnaðarmanna, sem birtist sem skoðun Alþýðublaðsins og þar með Alþýðuflokksins þann daginn.
Frumbýlingsár Samfylkingarinnar eru eftirminnileg. Hún þroskaðist frá því að vera frumstætt kosningabandalag fjögurra ólíkra flokka yfir í öfluga og nokkuð samstæða breiðfylkingu jafnaðarmanna á Íslandi. Þar skipti miklu atkvæðagreiðslan um hvort flokkurinn vildi að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu.
Sú atkvæðagreiðsla allra flokksmanna kom í kjölfarið á myndarlegri bók um hvert svið aðildar og áhrif þess á íslenskt samfélag, en ég fékk Eirík Bergmann Einarsson stjórnmálafræðing til þess að ritstýra henni. Það gerði hann vel og úr varð rit sem enn er notað í umræðum um áhrif aðildar að ESB á Ísland. Flokksmenn samþykktu með afgerandi meirihluta að sótt skyldi um aðild og var Samfylkingin þar með orðinn fyrsti flokkurinn til þess að hafa þá stefnu frá því að Alþýðuflokkurinn mótaði sér slíka stefnu mörgum árum áður.
Ég starfaði sem framkvæmdastjóri flokksins til haustsins 2002 þegar ég hætti til að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og Karl Th. Birgisson tók við af mér.
Á þessum árum kynntist ég flokknum vel og hundruðum flokksmanna um land allt. Aðalheiður Franzdóttir og síðar Þorgerður Jóhannsdóttir unnu með mér á skrifstofunni og lögðu sig allar í uppbygginguna á nýju hreyfingunni. Þá vann um tíma með okkur Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og sá um málefni sem sneru að Ungum jafnaðarmönnum.
Þarna kynntist ég líka vel þingmönnum sem mikið kvað að.
Sighvatur Björgvinsson var einn af þeim. Í dramatískri kveðjuræðu yfir þingflokknum í Þjóðmenningarhúsinu sagði hann og vitnaði í Finnboga Rút: Pólitíkin er eins og blaðamennskan – eitruð prófessjón. Talaði hann af mikilli reynslu eftir þrjá áratugi í bransanum. Að honum var eftirsjá enda klár og harður stjórnmálamaður.
Sérstökum vinaböndum bast ég við Siglfirðinginn Kristján L. Möller og Austfirðinginn knáa, Einar Má Sigurðarson, sem var þingmaður flokksins þar eystra. Einar Már er með skarpari mönnum en naut sín ekki til fulls í stjórnmálavafstrinu. Oft fannst mér að hann hefði ekki þolinmæði til að seiglast í gegnum daufleg ár stjórnarandstöðunnar og því rak hann frá leiknum þar til hann hætti árið 2009. Enda maðurinn vanur því að stjórna eftir áratuga samfellda valdasetu vinstrimanna í Neskaupstað og síðar Fjarðabyggð.
Þá reyndist Kristján mér traustur vinur í darraðardansi síðustu ára. Eins hef ég lagt mig fram um að halda sambandi og vináttu við þá Jóhann Ársælsson og Karl V. Matthíasson frá fyrstu árunum með þingflokknum.
Samfylkingin var pólitískur draumur sem rættist. Sameinað afl um frjálslynda félagshyggju sem myndaði kjölfestu íslenskra stjórnmála. Það skipti ekki öllu máli þótt kvarnaðist úr til vinstri. Í raun var eðlilegt að harðsnúnasti hópurinn til vinstri vildi heldur tilheyra lítilli jaðarhreyfingu en meginstraumsflokki nær miðju.
Ein togstreitan, sem fylgdi frá stofnun og um voru skiptar skoðanir, var hvort slík hreyfing ætti að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eða ekki. Valkostur eða vinnufélagi? Það var spurningin og mín skoðun var sú að það ættum við ekki að gera, eins og áður hefur verið nefnt.
Þetta skeggræddi ég við marga af félögum mínum sem voru á því að fráleitt væri að eiga stjórnarsetu undir duttlungum Vinstri grænna og stöðu Framsóknar eftir tólf ára samstarf þeirra við Sjálfstæðisflokkinn.
Einn þeirra sem ég tókst oft á um þetta við var Einar Karl Haraldsson. Hann taldi mitt sjónarmið ekki ganga upp; við yrðum að vera opin fyrir öllum mögulegum kostum. Einari kynntist ég fyrst þegar hann var framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins og ég vann hjá honum fyrir kosningarnar 1995 við utankjörfundarmál. Síðan hefur hann reynst mér vel enda einhver yfirvegaðasti og ráðabesti maður sem ég hef kynnst um dagana.
Ég lá ekki á viðhorfum mínum þótt lítill þokki væri á þeim í forystu flokksins. Þeim til áréttingar skrifaði ég grein í Morgunblaðið í júlí 2006 þar sem ég tók af allan vafa um mína skoðun þótt ég teldi víst að þau yrðu ekki ofan á með þáverandi forystu í flokknum. En mitt var að slást fyrir þeim.
Greinin hét því afdráttarlausa nafni Ný hækja eða hólmganga við Sjálfstæðisflokkinn? Hún vakti mikil viðbrögð og gat af sér ágæta umræðu.
Þar sagði meðal annars:
„Samfylkingin var stofnuð með sögulegt hlutverk að markmiði: Að sameina jafnaðarmenn í einum flokki og mynda raunverulegan valkost við Sjálfstæðisflokkinn. Binda þar með enda á langa valdatíð hægrimanna í íslenskum stjórnmálum og breyta samfélaginu í anda jafnaðarstefnunnar.
Vegna sundrungar á vinstri kantinum og einingar hægrimanna í Sjálfstæðisflokknum hefur sigurganga hans verið löng og samfelld. Sambærileg við þá stöðu sem jafnaðarmenn hafa á Norðurlöndunum. Öllum nema Íslandi þar sem jafnaðarmenn voru í sjötíu ár sundraðir í mörgum flokkum í stað þess að mynda eina breiðfylkingu.
Á hinum Norðurlöndunum er það undantekning að hægrimenn komist til valda. Hér er það nánast regla að Sjálfstæðisflokkurinn sitji við völd.
Veldi íhaldsins virtist engan endi ætla að taka. Síðan fór að rofa til. Reykjavíkurlistinn vann sögulegan sigur árið 1994 og árið 1999 tókst að mynda kosningabandalagið Samfylkinguna með þátttöku allra fjögurra flokkanna til vinstri og brautin var rudd.
Í fyrsta sinn fékk flokkur vinstra megin við miðju yfir 30% atkvæða sem var fylgi Samfylkingarinnar í kosningunum 2003. Alvöru breiðfylking vinstra megin við Sjálfstæðisflokkinn var orðin að raunveruleika og veldi hans ógnað í fyrsta sinn fyrir alvöru…
Ógnin sem Sjálfstæðisflokknum stendur af Samfylkingu jafnaðarmanna er mikil. Bandalag jafnaðarmanna sem á möguleika á því að ná 30-40% fylgi er martröð íhaldsins og markar endi á valdaskeiði þeirra.
Með áralangri pólitískri vinnu fjölda fólks tókst að sameina Alþýðuflokkinn, Alþýðubandalagið, Þjóðvaka og Samtök um kvennalista í einum breiðum flokki. Stórum sósíaldemókratískum flokki að norrænni fyrirmynd í þeim tilgangi að breyta íslenska samfélaginu.
Það er þess vegna fráleit hugmynd sem nýverið kom fram í grein eftir Margréti Björnsdóttur á síðum Morgunblaðsins að það væri fýsileg hugmynd að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar komi til greina nú. Til hvers var þá sameinað? Var þá ekki alveg eins gott að starfa áfram í flokkunum fjórum og keppast um að komast í hlutverk hækju Sjálfstæðisflokksins eftir hverjar kosningar eins og var dapurlegt hlutskipti vinstriflokkanna á árum áður?
Í ljósi sögulegs hlutverks Samfylkingarinnar er samstarf við Sjálfstæðisflokk síðasti kostur flokksins. Neyðarkostur sem sérstakar aðstæður yrðu að kalla fram. Ekkert annað réttlætir slíkt samstarf þó að það sé auðvitað ekki útilokað komi slíkar aðstæður upp. Enginn sér hamfarir eða þjóðarvá fyrir.
Samstarf við Sjálfstæðisflokk myndi marka endi draumsins um nýja breiðfylkingu sem leysti Sjálfstæðisflokkinn af hólmi. Samfylkingin væri þá ekki að uppfylla sitt sögulega hlutverk.
Umræðan er vissulega ágæt og það er skylda flokkanna við kjósendur að tala skýrt um samstarfskostina að loknum kosningum. Ekki síst næstu kosningum sem vonandi marka endi á samfelldri sextán ára valdatíð hægrimanna á Íslandi. Um leið nýtt upphaf að stjórn undir forystu jafnaðarmanna.“
Þarna dró ég ekkert undan frekar en í samtali við formann flokksins tveimur dögum fyrir kosningarnar ári síðar, eins og frá er sagt áður. Það gerði ég einnig á fundi þingflokks daginn eftir kosningarnar 2007 ásamt nokkrum öðrum þingmönnum.,
Sú mynd var dregin upp í sífellu, að ef flokkurinn færi ekki í stjórn eigi síðar en vorið 2007 myndi hreyfingin og forysta hennar lenda í miklum tilvistarvanda. Það var kannski rétt með forystuna, en ekki flokkinn.
Þarna bar okkur af leið. Við trufluðum eðlilega þróun og rufum það traust sem við vorum að byggja upp gagnvart þjóðinni sem valkostur við ríkjandi valdhafa, en ekki sem hluti af valdakerfi þeirra. Það urðum við með samstarfinu þótt við héldum ágætlega á sérstöðu okkar og hugmyndum. Það var samt fjarri því að vera nóg.
Við vikum frá hugsjóninni um breiðfylkinguna sem byggði upp samfélag sósíaldemókratismans án þátttöku íhaldsmanna, hvort sem var til hægri eða vinstri.
Enn er þó morgunn og ekkert því til fyrirstöðu að taka upp þráðinn og setja af stað nýtt samrunaferli sem stefndi að sameiginlegu framboði frjálslyndra afla í samfélaginu: Samfylkingar, Framsóknar, hluta sjálfstæðismanna og hugsanlega lítils hluta Vinstri grænna.
Í orrustunni um Ísland morgundagsins er þetta framtíðarmódel frjálslyndra stjórnmálaafla sem ég er sannfærður um að við eigum að stefna að. Það er verkefni minnar kynslóðar vinstra megin við miðju.