Frá því að ríkisstjórn Geirs Haarde tók við völdum og váboðar erfiðleikanna gerðu vart við sig reyndum við að koma böndum á þróunina, en eftir á er ljóst að ríkisstjórnin gerði það ekki af nægilegri festu.
Í byrjun júní 2008 lét ég orð falla í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins sem voru lögð út á þann veg að bankarnir gætu lent í vanda ef lánamarkaðir opnuðust ekki fljótlega. Örfáum mínútum eftir að fréttin birtist fékk ég harkalegt sms-skeyti frá Sigurði Einarssyni stjórnarformanni Kaupþings, sem ég hafði aldrei hitt þá og hafði aðeins einu sinni talað við í síma vegna NIBC-málsins. Í skeytinu skammaðist hann yfir því að ég væri að gagnrýna stöðu bankanna en ekki að klappa hana upp sem fagráðherra.
Ég ákvað nú að hringja í manninn og benti honum á að hann hefði verið heldur kurteisari og bljúgari á manninn í okkar síðustu samskiptum.
Kaupþingsmenn höfðu þá leikið alltof djarft. Komið hafði í ljós að þeir réðu ekki við yfirtökuna á hollenska bankanum. Fræg ummæli voru höfð eftir Sigurði Einarssyni alla leið frá Abu Dhabi, að kæmist Kaupþing ekki út úr yfirtökunni án skaðabótaskyldu gæti hann allt eins kvatt og labbað út í eyðimörkina. Það sýndi betur en margt annað hvernig forystumenn bankakerfisins voru staddir andlega í því álagi sem á þeim hvíldi vegna lausafjárstöðunnar.
Þegar þarna var komið fram á sumarið 2008 voru taugar bankamanna þandar til hins ítrasta eins og ráða má af skammarskeyti Sigurðar til mín. Ekki mátti nefna að nokkrir brestir væru að myndast í bankakerfinu því að þá gæti áhlaup hafist og allt fallið. Þetta var í sjálfu sér rétt og slíkur vítahringur hafði myndast.
Eina leiðin út úr honum úr þessu var að bankarnir seldu eignir erlendis. Við beittum okkur gagnvart bönkunum um að þetta yrði gert og hefðum án vafa átt að ganga harðar fram í þeim þrýstingi. Það var þó ekki jafneinfalt og mörgum finnst eftir á enda markaðir með fjármálalegar eigur frosnir um allan heim á þessum tíma.
Um þetta höfðum við Ingibjörg Sólrún, Geir og Árni rætt við forvígismenn allra bankanna á sameiginlegum fundi með þeim í ráðherrabústaðnum í febrúar 2008. Þeir tóku undir mikilvægi þess að losa eigur erlendis og koma heim með fjármagnið, en markaðir þyrftu að vera til staðar. Á þessum fundi ítrekuðu þeir enn og aftur að þeir væru allir vel fjármagnaðir og lítið að óttast ef lausafjárkreppan drægist ekki enn frekar á langinn.
Á þessum fundi spurði ég Sigurjón Árnason Landsbankastjóra um hversu alvarlega hann mæti hlutfallsvandann á milli stærðar bankanna og gjaldmiðilsins. Við spurninguna skipti hann nánast litum og svörin voru loðin.
Þetta var spurningin sem aldrei mátti spyrja. Sigurjón vildi ekki svara henni, líklega af því svarið lá í augum uppi: Umsókn um aðild að ESB og stefnan á að taka upp evru var eina lausnin á hlutfallsvandanum. Sigurjón fann oft að því í samtölum við aðra að ég gengi alltof hart fram í Evrópumálum. Hann sagði að ekki mætti stilla Sjálfstæðisflokknum upp við vegg í málinu. Hann yrði að fá að þokast á sínum hraða í átt að niðurstöðu.
Stofnun innistæðureikninga í útibúum erlendis hefði líka átt að verða stjórnvöldum tilefni harkalegri varnaraðgerða, en fáir virtust sjá veruleikann í réttu ljósi. Hér heima var Icesave árið 2006 fagnað eins og einstöku happi og hópur íslenskra hagfræðinga valdi reikningana í þriðja sæti sem viðskiptaævintýri ársins 2007. Allt fram í september 2008 töluðu jafnvel ráðherrar um að ein af leiðunum til að komast út úr lausafjárkreppunni væri að auka innlán bankanna erlendis.
Eftir á er sorglegt hversu litlar hindranir kerfið lagði í götu bankanna þegar þeir lögðu í innlánsævintýri sín erlendis. Lögin, sem byggð voru á tilskipunum samkvæmt EES-samningnum, voru þannig að Landsbankinn þurfti ekkert leyfi frá FME eða viðskiptaráðuneytinu til að stofna til Icesave-reikningana. Honum nægði að senda inn tilkynningu. Til þess hafði hann fulla heimild á íslensku starfsleyfi sínu samkvæmt ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga og fjármálaþjónustu. Icesave-starfsemin hófst því með einfaldri tilkynningu Landsbankans til FME um að hún væri í farvatninu haustið 2005.
Fáir sáu hættuna nægilega glöggt til að vara við henni. Þeir sem það gerðu töluðu varfærnislega til að gefa ekki til kynna að kerfið væri í hættu. Allir voru samvirkir og það varð opinber lína að tala um hve traust kerfið væri og undir rós um veikleika þess. Jón Sigurðsson, þá orðinn stjórnarformaður FME, lýsti því hins vegar strax yfir í blaðaviðtölum í febrúar 2008 að það væri forgangsverkefni FME að koma starfsemi bankanna í útibúum erlendis í dótturfélög.
Fram að ágúst 2008 hafði ég haft traustar fréttir um að breska fjármálaeftirlitið (FSA) og Landsbankinn ynnu ötullega að því að koma útibúum bankans yfir í dótturfélag og fylgdist FME með framvindunni. Bæði ráðuneytið og Seðlabankinn voru í góðri trú um að þeirri vinnu yndi vel fram þótt í ljós kæmi í ágúst, þegar aðkomu minnar var óskað sem ráðherra, að lokahnykkinn vantaði. Ég hafði þær upplýsingar um stöðu á viðræðum Landsbankans við FSA fyrir miðjan ágúst 2008, að Landsbankinn væri að vinna að lausn málsins og flutningi á innlánum.
Afstaða FME var sú að stofnunin væri bundin trúnaði um allar upplýsingar sem að málinu lytu og því upplýsti hún mig ekki um stöðuna. Upplýsingar þær sem ég fékk um málið voru frá fulltrúa ráðuneytisins í samráðshópi stjórnvalda og þær gáfu að mínu mati ekki tilefni til að grípa inn í þá vinnu eða áætlun um flutning á innlánum sem var í gangi í samráði við FSA.
Í ágúst barst Landsbankanum hins vegar bréf þar sem bresk yfirvöld hótuðu að loka allri starfsemi bankans tafarlaust ef hann flytti ekki starfsemi sína þar ytra úr útibúi í dótturfélag. Það þýddi m.a. að Icesave-innistæðurnar færu undir breska innistæðuvernd og hættan á nýju bankaáhlaupi í Bretlandi minnkaði til muna.
Ótti breskra yfirvalda við allsherjarhrun breska bankakerfisins var mjög mikill vegna áhlaupsins á Northern Rock haustið 2007 og versnandi aðstæðna á mörkuðum. Slíkt hrun hefði kollvarpað breskum efnahag enda Lundúnir ein af fjármálamiðstöðvum heimsins og umsvif fjármálageirans risavaxin í landinu.
Í kjölfar þessa bréfs leituðu fyrirsvarsmenn Landsbankans til mín um aðstoð við að ná niðurstöðu með FSA í málinu. Það gerðu þeir fyrir milligöngu Ásgeirs Friðgeirssonar, en hann hafði setið á þingi fyrir Samfylkinguna á kjörtímabilinu áður. Við Ásgeir urðum sammála um að staðan væri orðin svo alvarleg að réttast væri að taka málið á pólitískt stig og freista þess að ná fundi breskra ráðherra án tafar. Eftir nokkur símtöl við Ásgeir um málið bað ég Jón Þór að setja öll net út til að ná fundi með breska fjármálaráðherranum. Við yrðum að gera allt sem í okkar valdi stæði til þess að koma útibúinu í dótturfélag og þar með úr íslenskri lögsögu.
Okkur tókst að koma á fundi með FSA og fjármálaráðherra Bretlands, Alistair Darling, 2. september 2008 með einungis tveggja daga fyrirvara.
Þarna barst Icesave-málið til viðskiptaráðuneytisins, en ráðuneytið og Seðlabankinn höfðu fram að því verið fullvissuð um að málið væri í traustum farvegi. Nú voru góð ráð dýr því að Bretarnir kröfðu Landsbankann samhliða um flutning á miklu eigin fé, sem hefði sett bankann í þrot. Því skipti öllu máli að fá bresk yfirvöld til þess að flytja starfsemina strax yfir, en heimila bankanum að flytja nægt eigið fé á móti í áföngum á nokkrum mánuðum. Það var aðferðin sem við lögðum upp með.
Við flugum út til Lundúna kvöldið áður og vorum mætt tímanlega upp í breska fjármálaráðuneytið. Nokkur spenna var í hópnum enda mikið í húfi að okkur tækist að sannfæra Darling um að leggja að FSA að fara þessa leið. Staðreyndin var sú, að slakaði FSA ekki á kröfum sínum var staða Landsbankans í miklum háska.
Fundurinn var miklu styttri en menn gera sér líklega grein fyrir af fjölmiðlaumfjöllun síðari tíma um hann. Breski fjármálaráðherrann var flaumósa og tættur enda í pólitískum barningi á heimavígstöðvunum. Þennan morgun var hann á forsíðum allra dagblaðanna fyrir að hafa daginn áður gefið út fræga yfirlýsingu um að fyrir dyrum væri kreppa sem væri sú mesta í 60 ár.
Það jók á dramatík dagsins þegar fréttist að búið var að kalla Darling í Downing-stræti 10 þennan morgun til fundar við Brown forsætisráðherra. Fjölmiðlar gerðu því skóna að á þeim fundi ætti að reka hann úr stjórninni og það var umsátursástand um ráðuneyti hans. Að morgni þriðjudagsins var ekki einu sinni vitað fyrir víst að af fundinum með Íslendingunum yrði.
Í samtalinu við Darling þótti mér því ekkert óeðlilegt að það var eins og ráðherrann væri með hugann annars staðar. Í lok fundarins lagði hann hart að okkur að ekki færi orð út opinberlega um að við hefðum verið að fjalla um innlánsreikningana og flutning þeirra í breska lögsögu. Málið væri orðið heitt í breska þinginu og hann mætti ekki við meiri ágjöfum í bili.
Síðan kvaddi hann stuttaralega og hélt undir augum fjölmiðlanna rakleiðis til að hitta Gordon Brown forsætisráðherra,
Birni Jóni Bragasyni sagnfræðingi segist svo frá fundinum í greinargerð sinni um fall bankanna:
„Meginhluti fundarins fór í að skýra fjármálaráðherra Breta frá sjónarmiðum og samskiptum íslenska fjármálaeftirlitsins og þess breska undanfarna mánuði vegna Icesave-innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi og viðræðum um að útibúi bankans í Lundúnum yrði breytt í dótturfélag, en Jón Sigurðsson hafði orð fyrir íslensku sendinefndinni. Alistair Darling kvaðst þekkja til málsins og hafa fengið upplýsingar um samskipti fjármálaeftirlitanna. Hann lagði áherslu á að reynt yrði að flýta fyrir því að niðurstaða fengist í málinu með viðræðum fjármálaeftirlitanna. Darling vakti einnig máls á því að þetta mál hefði borið á góma á breska þinginu, sem hefði áhuga á framvindu mála.
Degi síðar sendi viðskiptaráðuneytið frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu:
„Viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, átti í gær fund með fjármála- og
bankamálaráðherra Bretlands, Alistair Darling. Á fundinum ræddu þeir góð
samskipti þjóðanna á sviði fjármálamarkaðar. Íslensku bankarnir hafa mikla
starfsemi á Bretlandi og er landið stærsti markaður íslensku bankanna, utan
Íslands. Einnig ræddu ráðherrarnir hvaða lærdóm megi draga af aðstæðum á
mörkuðum undanfarna mánuði.“
Björgvin sagði síðar að efni fundarins hefði verið hvernig breyta mætti útibúi
Landsbankans í Lundúnum í dótturfélag og færa Icesave-reikninga bankans undir það félag. Það var heldur ekki fyrr en löngu síðar sem í ljós kom að ýmsir aðrir háttsettir embættismenn íslenskir hefðu setið fundinn.“ (Skýrsla um aðdraganda falls Landsbanka Íslands hf. – Greinargerð bls. 10)
Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, var með okkur á fundinum. Hann hefur nú verið ákærður fyrir meint innherjasvik í tengslum við sölu hlutabréfa hans í Landsbankanum skömmu eftir fundinn. Einkum er vísað til þess að hann hafi setið í samstarfshópi um fjármálastöðugleika og hafi innan hans einnig komist yfir upplýsingar sem gerðu hann að innherja.
Stundum hefur verið látið að því liggja að Baldur hafi beinlínis troðið sér í Lundúnaferðina. Veru hans þar bar þó að með öðrum hætti. Ég gætti þess vitanlega að láta koma fram á fundi í ríkisstjórn að við værum að freista þess að ná fundi Darlings. Geir hringdi svo í mig á sunnudeginum, en fundurinn ytra var á þriðjudagsmorgni og spurði hvort ekki væri í lagi að Árni Mathiesen fjármálaráðherra fengi að senda fulltrúa sinn með í förina. Darling væri í raun samráðherra hans frekar en minn. Ég hafði síður en svo á móti því. Þannig vildi það til að Baldur slóst í för.
Niðurstaða fundarins í Lundúnum var að Landsbankinn héldi áfram, í samvinnu við FSA, vinnu við að flytja innistæðurnar í dótturfélag bankans í Bretlandi. Hvorki á þeim fundi né með öðrum hætti kom fram að nauðsynlegt væri að ríkið legði fram fjármuni eða tryggingar til þess að af þessum flutningi gæti orðið. Slíkt hvarflaði heldur ekki að mér – það var hvorki í mínum verkahring að leggja til né heldur hafði ég umboð til að bjóða slíkt fram.
Þá tel ég einnig, jafnvel þótt nú sé horft til baka, að á þeim tíma hafi ekki verið tímabært að bjóða fram ríkisstuðning við Landsbankann með þeim hætti enda hefði verið um mjög stóra og afdrifaríka ákvörðun að ræða. Hún hefði eflaust kallað fram áhlaup á reikninga Landsbankans annars staðar, svo sem í Hollandi. Að mínu mati kom því á þeim tíma sem um ræðir, eftir fundinn 2. september 2008, ekki önnur aðkoma til greina en pólitískur stuðningur við málið eins og að þrýsta á flutninginn á fundi með fjármálaráðherra Bretlands.
Þegar við komum heim af fundinum með Darling sendi viðskiptaráðuneytið út veglega fréttatilkynningu sem fjölmiðlar birtu ásamt mynd af okkur félögunum. Því nefni ég þetta, að í bréfi Ingibjargar Sólrúnar til þingmanna í aðdraganda þingumræðunnar um Landsdóm kvað hún sér hafa verið allsendis ókunnugt um fund minn og Darlings. Hitt er ég sannfærður um að hún gerði sér ekki grein fyrir hversu alvarleg staða Icesave-reikninganna var orðin.
Það birtist mér í því að í ræðu á Alþingi sama dag og við áttum fundinn með Darling sagði hún að ein af leiðunum til að vinna gegn lausafjárkreppunni væri að auka innlán bankanna erlendis. Athyglisvert er að í umræðunni fann enginn að því. Á þessu augnabliki töldu jafnvel forystumenn í ríkisstjórninni í lagi að slá í klárinn. Það undirstrikar hversu seint menn skildu háskann í Icesave.
Stundaglasið rann út. Eftir að alheimskreppan skall á 15. september var allt frosið fast og fátt hægt að gera. Breskum stjórnvöldum hefði þó verið mögulegt að taka innistæður og starfsemi Landsbankans yfir í dótturfélag hans í Bretlandi. Þar með hefðu þeir getað afstýrt áhlaupi á bankann eftir að fjármálakreppan ágerðist.
Þetta er einn dapurlegasti kaflinn í allri útrásarsögunni og aðdraganda hrunsins. Um kvöldið fórum við Jón Þór og Áslaug (Jón Sigurðsson þáði ekki boð um að koma með) á tónleika með þeiri sögufrægu pönksveit Sex Pistols í Hammersmith Odeon. Þar sem Johnny Rotten söng God Save the Queen af öllum lífs og sálarkröftum í lok magnaðra tónleika datt engu okkar í hug að rétt um mánuði síðar bæði forsætisráherra Íslands þennan sama guð að blessa landið okkar vegna fjármálahamfara sem voru rétt handan við hornið.