Sunnudaginn 5. október funduðum við Geir, Össur og Árni með bankastjórum allra bankanna í Tjarnargötunni. Hreiðar Már Sigurðarson og Sigurður Einarsson komu fyrstir og lögðu fram hugmynd eða tillögu um aðkomu Kaupþings að rekstri Glitnis.
Kl. 11 þennan morgun áttum við síðan frægan fund með Björgólfi Thor Björgólfssyni, Yngva Erni Kristinssyni, forstöðumanni verðbréfasviðs Landsbankans, og bankastjórunum báðum, þeim Halldóri Jóni Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni. Hvöttum við Landsbankamenn til viðræðna við Kaupþingsmenn um sameiginlega aðkomu bankanna beggja að Glitni. Varð það úr síðar um daginn, að fulltrúar beggja banka settu fram sameiginlegar tillögur um slíka leið út úr ógöngunum.
Ekki varð þó ráðið af fasi eða málflutningi Landsbankamanna að þeir tryðu því að þeir kæmust út úr helginni með bankann í lagi. Sá eini sem reyndi að sannfæra okkur um að þetta væri hægt var Björgólfur Thor. Let´s live to fight another day, sagði hann við okkur í lok fundarins og bar sig vel.
Þá stóðu menn upp, en Sigurjóni varð að orði um leið og hann stakk upp í sig bakkelsisbita (sem Össur fullyrti við rannsóknarnefnd Alþingis að hefði verið glassúrsnúður): Þetta er búið!
Hvað sagðir þú? spurði Össur að bragði nokkuð hvasst enda brá okkur í brún við orð bankastjórans, sem virtist úttaugaður eftir áföll liðinna daga. Svona, sagði Árni Matt við Össur, láttu hann í friði.
Eftir stóðum við nokkuð bit yfir því hvert erindi þeirra hefði í raun verið á þennan fund. Annars vegar vildu þeir að ríkið legði bankanum til himinhátt lán út af Icesave og hins vegar enn meira fjármagn vegna sameiningar bankanna. En svo þegar upp var staðið tilkynnti andlit bankans og holdgervingur að þetta væri allt búið.
Í skýrslu sinni um aðdraganda að falli Landsbanka Íslands hf. segist Birni Jóni Bragasyni sagnfræðingi svo frá lokafundum helgarlotunnar:
„Kl. 19:45 hófst símtal Geirs H. Haarde við Gordon Brown, forsætisráðherra Breta. Brown hvatti Geir ákaft til að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þiggja neyðaraðstoð…
Kl. 20:00 komu Grétar Þorsteinsson forseti Alþýðusambandsins, Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífssins og fulltrúar lífeyrissjóða til fundar í ráðherrabústaðnum. Af orðum aðila vinnumarkaðarins að dæma hafði enginn árangur orðið af fundinum, en honum lauk um kl. 21:00.
Kl. 21:20 komu Lárus Welding og Þorsteinn Már Baldvinsson, auk Sigurðar G.
Guðjónssonar, lögmanns Stoða, nafna hans Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðarsonar til fundar við ríkisstjórnina. Þar var einnig Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri. Á staðnum voru fyrir Geir H. Haarde, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra.
Kl. 21:43. Þá voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Kristján Möller samgönguráðherra einnig mætt á staðinn.
Kl. 22:03 voru Glitnismenn farnir, þ.e. Lárus, Þorsteinn Már og Sigurður G.
Kl. 22:20 voru bankastjórar Landsbankans mættir í ráðherrabústaðinn, auk Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins.
Kl. 22:30 kom þingflokkur Samfylkingarinnar til fundar.
Kl. 23:00 hittust þingmenn Sjálfstæðisflokks.
Skömmu fyrir miðnætti ræddi Geir H. Haarde við fjölmiðla og sagði ríkisstjórnina hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri þörf á sérstökum meiriháttar aðgerðum. Ætla má að á þeirri stundu hafi forsætisráðherra verið búinn að grípa til frumvarps um neyðarlög og séð fyrir sér að skilið yrði milli erlendrar og innlendrar starfsemi bankanna líkt og Davíð Oddsson lýsti opinberlega tveimur dögum síðar.
Geir tilkynnti þó að samkomulag hefði náðst um að bankarnir drægju úr umsvifum sínum erlendis. Í samtali við fjölmiðlamenn á sömu stundu sagði Geir að hann teldi ekki ástæðu til að slegið yrði lán að fjárhæð 500 milljarðar króna frá Seðlabanka Evrópu. Bætti hann því við að ekki væri von á tilkynningu fyrir opnum markaða næsta morgun.
Um nóttina funduðu ráðherrarnir Geir H. Haarde, Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Árni M. Mathiesen með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins og ráðgjöfum, m.a. frá J.P. Morgan“ (Bls. 32)
Þetta yfirlit yfir atburðarásina er líklega nokkuð nákvæmt, en eitt er ekki rétt. Ákvörðun um setningu neyðarlaganna hafði ekki verið tekin þegar Geir talaði við blaðamenn um miðnættið. Skömmu síðar hófst afdrifaríkasti fundur helgarinnar og sá sem úrslitum réði. Það var fundur með fulltrúum bandaríska bankans J.P. Morgan. Þeir drógu að lokum upp myndina af raunverulegri stöðu mála.
Þar sem við Össur fórum til fundar við þingflokkinn og gerðum grein fyrir stöðunni fyrr um kvöldið var enn von í lofti. Við töldum að ekki væri öll nótt úti enn og engan óraði fyrir því þá að sólarhring síðar yrðum við á mesta neyðarþingfundi lýðveldissögunnar. Ekki var talið útilokað að bresk yfirvöld myndu taka Icesave-reikningana yfir í dótturfélag til að koma í veg fyrir áhlaup á bankann og kerfið allt.
Í þeim töluðu orðum fengum við boð frá Geir um að koma á miðnætti aftur upp í ráðherrabústað á mjög áríðandi fund. Við fengum það eitt að vita að á fundinum yrðu líka bankamenn að utan.
Þetta sunnudagskvöld lýsti Össur afdráttarlaust í fyrsta sinn á þingflokksfundi því mati sínu, að þessi ríkisstjórn gæti ekki starfað áfram. Hann teldi eindregið að það ætti að slíta henni. Hvorki forsætisráðherra né seðlabankastjóri gætu stýrt okkur út úr vandanum, Geir myndi aldrei nokkurn tímann láta Davíð fara og á honum sem seðlabankastjóra ætlaði Össur ekki að bera ábyrgð. Þingmönnum brá auðvitað við þessa ræðu Össurar og hugsaði hver sitt.
Frá þessum klukkustundum segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur svo frá í bók sinni, Hruninu;
„Um sama leyti og þessi tölvupóstur var sendur sat Geir H. Haarde enn á fundum í ráðherrabústaðnum. Hann hafði ekki getað lagst til hvíldar heima eftir þingflokksfund sjálfstæðismannna eins og hann hafði sagst gera sér vonir um. Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson þurftu líka að vaka, svo ekki sé minnst á fréttamennina sem stóðu vaktina áfram á Tjarnargötunni. Ekki fengu þeir þó sannfærandi svör um það hverja ráðherrarnir hygðust hitta innan dyra í þetta sinn. Misvísandi viðbrögð við þeirri spurningu sögðu sitt um hreinskilni þeirra og jafnvel vitneskju um atburðarásina hverju sinni:
Geir H. Haarde: „Ég vil ekki segja það.“
Árni M. Mathiesen: „Ég veit það ekki.“
Björgvin G. Sigurðsson: „Fjármálaeftirlitið.“
Össur Skarphéðinsson: „Einhverja erlenda bankamenn. Ég veit ekki hverja.“
Össur og Björgvin komust næst því að veita þjóð sinni svar við tiltölulega einfaldri spurningu sem fréttamenn voru annars nógu fljótir að finna eftir öðrum leiðum: Í ráðherrabústaðnum biðu meðal annnarra fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og ráðgjafar frá fjármálarisanum J.P. Morgan. Þeir höfðu verið hér á landi um skeið, auk sérfræðings frá Englandsbanka, og verið stjórnvöldum (einkum Seðlabankanum) til halds og trausts. En hvað varð enn að ræða fram á nótt fyrst ekki var þörf neinna sérstakra aðgerða? Eða hafði forsætisráðherra sagt ósatt í ávarpi sínu um hina minnkandi spennu og „það á ekkert að gera“ lausnina? Tæpum sólarhring síðar sagði Geir H. Haarde að á sunnudagskvöldið hefði skyndilega rofað til og það hefðu verið „atburðir að gerast úti í heimi sem gætu skipt máli fyrir kerfið“. Einkum var það víst léttir að Seðlabanki Evrópu ákvað að gjaldfella ekki að sinni lán til Kaupþings upp á 800 milljónir evra og breytt afstaða bankans til Landsbankans skipti einnig miklu máli.
Enginn þeirra sem til málanna þekktu taldi þó að sá gálgafrestur breytti miklu þegar á heildina væri litið. Í raun hafði forsætisráðherra valið að afvegaleiða landsmenn, ekki í illsku sinni heldur frekar vegna þess að í hönd fóru mikilvægustu stundir á stjórnmálaferli hans. Honum fannst hann verða að fá frið. Það var skiljanlegt en betur hefði þó farið á því að hann hefði áfram sagt ástandið grafalavarlegt í stað þess að láta sem allt væri nú í himnalagi. Aðgerðaleysisávarp Geirs H. Haarde undir miðnætti sunnudagskvöldið 5. október 2008 var eitt besta dæmið í allri fjármálakreppunni um þá tilhneigingu forsætisráðherra, margra ráðherra, embættismanna, bankastjóra og ýmissa annarra sem um málið fjölluðu að telja best að lýðurinn vissi sem minnst sem lengst.“ (Bls. 119-120).
Við Össur mættum tímanlega á fundinn og hann sátu, auk okkar og Geirs, Árni M. Mathiesen, ráðuneytisstjórarnir Baldur Guðlaugsson og Bolli Þór Bollason, Jón Sigurðsson formaður stjórnar FME, Jónas Fr. Jónsson og Ingimundur Friðriksson. Og svo hinir erlendu bankamenn.
Í tæplega klukkutíma langri yfirferð sinni rammaði talsmaður hópsins frá J.P. Morgan stöðuna inn: Bankakerfið er að falla. Það er of seint að bjarga því.
Ákvörðunin um að þjóðnýta Glitni var kornið sem fyllti mælinn og verður íslenska bankakerfinu að falli. Það er enn veik von um að Kaupþing standi þetta af sér, sögðu þeir, en sú ákvörðun stjórnvalda að bjarga Glitni en einbeita sér ekki að Kaupþingi í staðinn og láta hina falla hefði verið röng og markaði endalok bankanna allra, ef að líkum léti. Við Össur spurðum sérstaklega hvort stöðunni hefði mátt bjarga ef Kaupþing hefði verið varið í stað Glitnis. Hugsanlega, svöruðu fulltrúar J.P. Morgan, og bættu við að staða Kaupþings hefði verið sterkust af bönkunum og stjórnendur þess hæfastir.
Afdráttarlaust mat þeirra var, að þjóðnýting Glitnis hefði fellt kerfið og gert vonina um að bjarga því nánast að engu. Nú er bara eitt að gera, bættu þeir við: Setja neyðarlög um yfirtöku ríkisins á innlendri starfsemi bankanna.
Við sátum agndofa undir þessari ræðu. Myndin sem þeir drógu upp var svo skörp, afdráttarlaus og sannfærandi að enginn vafi lék lengur á því hvað var að gerast. Þessi kafli Íslandssögunnar var á enda. Bankarnir voru að falli komnir og nú var ekki annað að gera en að bjarga því sem bjargað yrði. Tryggja greiðslumiðlun innanlands og koma henni aftur á við útlönd ef svo færi sem á horfðist, að hún félli niður.
Þarna var ákvörðunin um setningu neyðarlaganna endanlega tekin. Rétt að verða klukkan tvö um nóttina aðfaranótt mánudagsins 6. október. Þetta var raunverulega búið. Bandarísku bankamennirnir skrifuðu í skýin það sem í vændum var.
Þetta var ísköld vatnsfata, sagði Össur þegar við yfirgáfum fundinn og er rétt lýsing á upplifun okkar allra sem þar sátum.
En allir héldu ró sinni. Enginn missti stjórn á skapi sínu. Mestu skipti þegar þarna var komið að samfélagið gengi sinn vanagang við afar óvanalegar aðstæður. Ekkert hik kæmi á innlenda starfsemi bankanna, almenningur treysti því að innistæður hans væru varðar og að rafræn greiðslumiðlun virkaði hnökralaust. Við upphaf hruns var raunverulegur möguleiki að allt þetta færi úr skorðum og allir óttuðust hið versta. Af fundinum með J.P. Morgan héldu ráðuneytisstjórarnir og forysta FME og Seðlabanka út í nóttina til að ljúka gerð frumvarps um neyðarlög til þess að veita FME heimild til að taka yfir rekstur fjármálafyrirtækja. Seinna göntuðust gárungarnir í bankaheiminum með að þeir hefðu allir stoppað í hraðbanka á leiðinni til að eiga laust fé til nauðþurfta.